KJÖTHÚS

Húsagerð höfuðstaðar. Saga byggingartækninnar í Reykjavík 1840 -1940.

Á sýningunni er farið yfir sögu húsagerðar og byggingartækni í Reykjavík á tímabilinu 1840–1940.

Árbæjarsafn-Sýningar-Húsagerð höfuðstaðar

Á árunum upp úr 1840 fór Reykjavík að eflast sem höfuðstaður landsins og þangað voru fluttar helstu stofnanir þjóðarinnar, þar á meðal Alþingi og Lærði skólinn. Þá var einnig farið að huga að skipulagi bæjarins og Byggingarnefnd Reykjavíkur tók til starfa, en hún sá um að útdeila lóðum og byggingarleyfum og gæta þess að byggingarsamþykktum væri fylgt.  

Sýningunni er skipt upp í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum eru tekin fyrir hlaðin steinhús þar sem sérreykvísk húsagerð, steinbærinn, er í forgrunni. Í öðrum hlutanum er fjallað um timburhús og sérstaklega tekin fyrir svokölluð sveitserhús. Þau voru reist á þeim tíma þegar vélvæðing í timburiðnaði hafði hafið innreið sína og íslenskir smiðir höfðu náð góðu valdi á byggingu timburhúsa. Þriðji hlutinn er tími steinsteypunnar. Þar er sjónum beint að funkishúsunum og verkamannabústaðirnir við Hringbraut teknir sem dæmi. Þegar þeir voru byggðir höfðu menn náð góðu valdi á notkun steinsteypunnar og járnbindingu.

Sýning þessi er ein af fastasýningum safnsins og stuðningur eða ítarefni við húsin á safnsvæðinu, sem og önnur friðuð hús í Reykjavík.

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.