Forsíða / Node / LÍKN – fjölnota fræðsluhús fyrir námskeið og nemendasýningar
15.09.2017

LÍKN – fjölnota fræðsluhús fyrir námskeið og nemendasýningar

Húsið Líkn er nýuppgert og á efri hæð þess er aðstaða fyrir ýmis námskeið og nemendasýningar í samstarfi við skóla og aðra aðila er tengjast starfsemi safnsins. Á neðri hæðinni er sýning um sögu ljósmyndunnar og ljósmyndastúdíó með búningum og fylgihlutum. Við hvetjum kennara til að ráðfæra sig við fræðsluteymi Borgarsögusafns um möguleika rýmisins.

Árbæjarsafn ® Roman Gerasymenko

Frá 5. október n.k. fram í miðjan janúar mun standa yfir sýningin UNDUR HVERSDAGSINS eftir nemendur í ljósmyndaáfanga Menntaskólans við Hamrahlíð undir leiðsögn Þórdísar Erlu Ágústsdóttur kennara

Sýningin byggir á Instagram-verkefninu #undurhversdagsins sem safnið bauð upp á í tengslum við sýningu Jóhönnu Ólafsdóttur „Ljósmyndir“ á Ljósmyndasafni Reykjavíkur fyrr á árinu. Efnistök sýningarinnar voru mannlífsljósmyndir sem samanstóðu af myndasyrpum af hversdagslegum viðburðum m.a. úr miðbæ Reykjavíkur. Markmiðið í slíkri ljósmyndun er að fanga fegurð og fjölbreytni sem felst í hinu hversdagslega, bæði götuljósmyndun sem og innanhúss.

Verkefnið hófst með því að nemendurnir skoðuðu sýninguna og eftir að hafa fengið innblástur frá henni lögðu þau drög að sinni eigin myndaseríu.  Hvaða áhugaverðu sögur er hægt að búa til með því einu að horfa og velta fyrir sér hversdagslegum aðstæðum? Hvaða aðstæður er áhugavert að ljósmynda? Þessar spurningar koma upp um leið og farið er í sjónrænar tilraunir með mismunandi þætti ljósmyndunar eins og ljós, fjarvídd, svart/hvítt eða lit.
Með þessu verkefni fengu nemendur innsýn í hvaða áhrif ljósmyndir þeirra geta haft og hvað er hægt að „segja“ í gegnum ljósmyndun.

Auk sýningarinnar sem stendur yfir í safninu má einnig finna afrakstur verkefnisins á Instagram síðunni Undur hversdagsins.

 

Aðgangur er ókeypis fyrir hópa á öllum skólastigum sem bóka heimsóknir í gegnum safnfraedsla@reykjavik.is 

Árbæjarsafn-nemendur ljósmyndavals í MH

Þarfnast síðan lagfæringar?

Látið okkur vinsamlegast vita