Ævintýraeyjan
Saga Viðeyjar og náttúra skapa ríkulegan jarðveg til fræðslu í ólíkum námsgreinum og það er von okkar að heimsóknir í Viðey nýtist sem stuðningur við starf skólanna.

Markmið heimsóknar
Í upphafi heimsóknar er hægt að bóka kynningu á því sem eyjan hefur upp á að bjóða. Viðey er tilvalinn staður til útikennslu í samfélagsfræði þar sem hún er samofin sögu Reykjavíkur, þéttbýlismyndun á Íslandi og atvinnusögu borgarinnar. Viðey er kjörinn staður til að fræðast um sérstöðu íslenskrar náttúru. Þar er mikið fuglalíf og verpa t.d. um 30 tegundir fugla í eynni. Viðey má nýta sem vettvang reynslunáms til að kynnast fjölbreyttu lífi í fjörum, sjávarföllum o.fl. Listaverkin í Viðey, Friðarsúla Yoko Ono og Áfangar eftir Richard Serra voru sérstaklega unnin út frá staðsetningu sinni í eyjunni. Þau gefa tækifæri til að staldra við og horfa gaumgæfilega á umhverfið í kring. Heimsókn í eyjuna má auðveldlega nýta sem innblástur til sköpunar.
Í Viðey eru góð aðstaða fyrir alla hópa
- Hesthúsið er nestisaðstaða sem er staðsett fyrir aftan Viðeyjarstofu. Þar er kolagrill sem gestum Viðeyjar er frjálst að nota auk salernis og leiksvæðis skammt frá.
- Viðeyjarnaust er aðstaða fyrir stærri hópa ásamt grilli og salernisaðstöðu.
- Skólahúsið er í austurhluta eyjunnar og þar er hægt að setjast inn, borða nesti en enginn grillaðstaða er við húsið.
- Gott er að hafa nesti í bakpoka því hópar bera sjálfir ábyrgð á að flytja nesti og vistir í eyjunni. Til að nýta grillaðstöðu eyjunnar, þarf að hafa með allt sem þarf til grillsins, þ.e.a.s. allan mat og meðlæti, kol, olíu, eldfæri, grilltangir, ruslapoka, diska, glös og þess háttar.
- Nauðsynlegt er að klæða sig eftir veðri og hafa í huga að hvassara getur verið í eynni en á landi. Best er að gera ráð fyrir að dvelja nokkrar klukkustundir í eynni.
- Kort af Viðey ásamt ýmsu ítarefni um byggingar, sögu, náttúru og list í Viðey má nálgast hér: http://borgarsogusafn.is/is/videy/um-videy
- Viðey er ekki hættulaus staður. Þar er að finna kletta, skurði og tjarnir sem geta verið varhugaverð. Við bendum á að börn eru á ábyrgð foreldra eða annarra forráðamanna í eyjunni.
Að bóka heimsókn:
Við mælum með því að kennarar ráðfæri sig með góðum fyrirvara við fræðsluteymi Borgarsögusafns til að útfæra heimsóknir í Viðey að vori eða hausti.
Við komuna í Viðey getur starfsmaður Borgarsögusafns tekið á móti skólahópum. Hann býður þau velkomin í eyjuna og veitir kennurum upplýsingar um aðstöðu og staðhætti í Viðey.
Ævintýraeyjan – Fræðsluspjöld um Viðey fyrir miðstig grunnskóla: Hvað er áhugavert að skoða í Viðey? Hvert er best að fara til að kynnast sögu, náttúru og list eyjunnar? Við komuna í Viðey afhendir starfsmaður Borgarsögusafns kennurum miðstigs fræðsluspjöld um ævintýraeyjuna Viðey. Spjöldin eru unnin af safnfræðslu Borgarsögusafns og er ætlað að veita kennurum innblástur, stuðning og upplýsingar um Viðey.
Skoðið fræðsluspjöldin á pdf formi hér: Fræðsluspjöld fyrir miðstig
Nánari upplýsingar: safnfraedsla@reykjavik.is
[scald=1090:sdl_editor_representation]
Viðeyjarferjan: Bóka þarf ferjuferðir hjá Eldingu/Hvalaskoðun. Rekstrarstjóri Viðeyjarferða hjá Eldingu er Guðlaugur Ottesen, netfang: gulli@elding.is
Viðeyjarferjan siglir út í eyju alla virka daga frá 15. maí til 15. september.
Skólahópar greiða í ferjuna skv. gjaldskrá Eldingar. Ekkert gjald er tekið fyrir 6 ára og yngri.
Viðey er perla sem ber að gæta og varðveita. Sýnum nærgætni í umgengni við hana svo hægt sé að koma og njóta náttúru hennar aftur og aftur.