Aðfangadagskvöld 1959 - RÚTUTILBOÐ!

Við opnum fyrir bókanir í jólafræðsluna okkar í vikunni 11.-15. október og svo hefst jólafræðslan þann 22. nóvember. Jólatré og jólapakkar. Ókeypis rúta fyrir grunnskóla í Reykjavík.

Það er alltaf jólalegt á að líta á Árbæjarsafni
Lækjargata 4. Fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið í Reykjavík, reist árið 1852

Fjöldi: 25 nem.

Bekkur: 5. - 7. 

Tími: 45-60 mín.

 

Jólaleiðsögn þar sem börnin læra um og taka þátt í jólahaldi fyrir rúmri hálfri öld. Jólaskraut verður hengt upp og jólapakkar opnaðir. Hægt er að fræðast um jólasiði, jólamat, leiki, helgihald og ýmislegt fleira.

Markmið

  • Að kynna fyrir börnum hvernig íslenskt jólahald var fyrir hálfri öld. Var hamborgarhryggur í matinn eða hangikjöt? Fengu allir margar gjafir eða bara eina?
  • Að hafa gaman saman í ljúfri jólastemmingu á safninu.

Tenging við námskrá - hæfniviðmið

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

  • Greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum. (Samfélagsgreinar: Reynsluheimur)
  • Rætt viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og sett í samhengi við atburði dagslegs lífs. (Samfélagsgreinar: Reynsluheimur)
  • Gert grein fyrir völdum frásögnum, hefðum, hátíðum, siðum og táknum í kristni. (Samfélagsgreinar: Reynsluheimur)

Undirbúningur fyrir heimsókn

Við mælum með hlýjum fatnaði í heimsóknum á Árbæjarsafn. Fyrir heimsóknina er tilvalið að ræða mismunandi hátíðir og hefðir nemenda. Halda allir í bekknum jól? Hvað finnst nemendum skemmtilegast við jólin?

Skipulag heimsóknar

  • Safnkennari tekur á móti hópnum á Árbæjarsafni.
  • Nemendur hengja upp jólaskraut, opna jólapakka og fræðast um jólasiði, jólamat, leiki, helgihald og ýmislegt fleira.

Úrvinnsla

Hægt er að læra enn frekar um mismunandi hátíðir í öðrum trúarbrögðum og leggja áherslu á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir trú og siðum annarra.

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.