Líkn

Kirkjustræti 12

likn.jpg

Líkn var byggð árið 1848 við Kirkjustræti og var fyrsta húsið við þá götu, að Dómkirkjunni undanskilinni. Húsbyggjandi var Chr. L. Møller. Í fyrstu var Líkn einnar hæðar, hlaðin úr tígulsteini, sem gekk af eftir viðgerð og stækkun á Dómkirkjunni. En 1882 var timburhæð byggð ofan á og í stað þess að hlaða steinum í grindina var steypt í hana.

Líkn var lengi íbúðarhús. Halldór Kr. Friðriksson eignaðist það 1851 og bjó þar til dauðadags 1902. Halldór var þekktur maður á sinni tíð fyrir þátttöku sína í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Var hann ábyrgðarmaður Fjölnis tvö síðustu ár hans og síðar alþingismaður um langt skeið. Hafði hann þar orð fyrir að vera ótrauður samverkamaður Jóns Sigurðssonar. Einnig sinnti Halldór mikið bæjarmálum Reykjavíkur. Halldór var kennari við Lærða skólann 1848-1895, þar af yfirkennari tvo síðustu áratugina. Kona hans, frú Leopoldina Friðriksson, var dönsk. Þau eignuðust sex börn sem upp komust. Leopoldina var mikil garðræktarkona og missti garðland þegar Halldór seldi landsstjórninni spildu undir byggingu Alþingishússins árið 1880.

Á lóð hússins var byggt móhús árið 1852. Einnig var þar kindakofi, eins og fram kemur í endurminningum Árna Thorsteinsson um mikið flóð í miðbænum árið 1881: „Það mun hafa verið í þessu sama flóði, sem flæddi í kindakofann hans Halldórs Kr. Friðrikssonar í Kirkjustræti 12, og voru ærnar fluttar inn í Alþingishúsið, er þá var í byggingu. Þótti það kynleg tilviljun að kindurnar voru 32, eða nákvæmlega jafnmargar þingmönnum þeirra tíma.“

Árið 1911 seldi Leopoldina húsið Háskóla Íslands og var þar m.a. rannsóknarstofa læknadeildar. Hjúkrunarfélagið Líkn fékk húsið til afnota á árunum 1941-56 og dregur það nafn sitt af því. Þar fór m.a. fram berklaskoðun. Síðast var húsið í eigu Alþingis sem hafði þar skrifstofur og skjalageymslur.

Húsið var flutt á Árbæjarsafn árið 1973 og lauk endursmíði þess 1978. 

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.