Kornhús 01.06.2011 til 01.01.2013

Blessað stríðið

Þann 10. maí árið 1940 hernámu Bretar Ísland og rúmu ári síðar tóku Bandaríkjamenn við hervernd á landinu. Koma herliðsins hafði í för með sér gífurlegar breytingar á íslensku samfélagi, ekki síst í Reykjavík. Vorið 2010 var opnuð ný sýning á vegum Árbæjarsafns í Kornhúsinu þar sem fjallað er um áhrif hernámsins á daglegt líf í Reykjavík.

Blessað stríðið

Herliðið stóð fyrir ýmsum framkvæmdum og fengu margir Íslendingar vinnu við mannvirkjagerð og þjónustu. Þá dró úr atvinnuleysi sem hafði ríkt um langan tíma og efnahagur Íslands vænkaðist verulega. Þrátt fyrir hafnbann Þjóðverja og hættu á árásum kafbáta seldu Íslendingar mikið af fiski til Bretlands en yfir 200 íslenskir sjómenn fórust í heimsstyrjöldinni síðari.

Árið 1940 voru Íslendingar um 120.000 og fjöldi íbúa í höfuðstaðnum var um 38.000 manns. Í júní 1943 töldu herir bandamanna á Íslandi um 50.000 manns og stærstur hluti herliðsins var í Reykjavík og nágrenni. Þegar mest lét slagaði fjöldi hermanna hátt í fjölda íslenskra karlmanna.

Samskipti Íslendinga við hina erlendu heri gekk í flesta staði vel og nokkuð var um sambönd milli hermanna og íslenskra kvenna. Mörgum hermönnum þótti hins vegar dvölin á Íslandi erfið, þeir kvörtuðu undan kulda og tilbreytingarleysi.

Bæjarlífið í Reykjavík tók miklum breytingum á stríðsárunum. Herbúðir settu svip sinn á umhverfið og hermenn voru áberandi. Veitingasala, verslun og ýmis þjónusta blómstraði. Dægurmenning, skemmtanalíf og almenn neysla breyttist verulega með nýjum menningar-straumum og auknum innflutningi. Reykjavík óx og dafnaði og í lok stríðsins breyttust herskálahverfin í íbúðabyggð.

Í ljósi þessara miklu samfélagsbreytinga hefur stundum verið talað um heimsstyrjöldina síðari sem „blessað stríðið“.

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.