Landakot 25.07.2020

Fornar rætur Árbæjar - Fornleifarannsókn

Sýning í Landakotshúsi sem fjallar um fornleifarannsókn sem fram fer á bæjarstæði Árbæjar.

Fornleifauppgröftur við Árbæ
Fornar rætur: fornleifauppgröftur við Árbæ

Fornar rætur Árbæjar er fornleifarannsókn sem fer fram á bæjarstæði Árbæjar á Árbæjarsafni. Rannsóknin hófst árið 2016 og hefur það að markmiði að svara spurningum sem tengjast upphafi og þróun byggðar í Árbæ og þá sérstaklega af hverju Árbær var valinn til búsetu í fyrstu; Var það vegna laxins í Elliðaánum? Var Árbær upphaflega sel frá bæjunum Gufunesi eða Vík? Byggði landnámsmaður sér kannski skála í Árbæ strax á 9. öld? Niðurstöður rannsóknarinnar munu varpa ljósi á þróun samfélagsins frá fyrstu öldum byggðar á svæðinu.

Vettvangsnámskeið Háskóla Íslands

Frá árinu 2018 hafa nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands tekið þátt í fornleifarannsókninni í Árbæ þar sem þeir læra fornleifafræðilegar aðferðir við uppgröft; að grafa og greina jarðlög, mæla og teikna fornleifar og ljósmynda. Einnig fá nemendur kennslu í fornleifaskráningu og meðhöndlun forngripa. Staðurinn hentar afar vel til kennslu þeirrar aðferðafræði sem beitt er við uppgröft því í bæjarhólum er að finna jarðlög af ýmsum toga sem hafa safnast upp í gegnum aldirnar. Í meginatriðum gengur aðferðafræðin út á að greina í sundur jarðlög, sem hvert og eitt táknar einn atburð í sögunni, og túlka það sem fyrir augu ber – frá því yngsta efst og niður á það elsta.

Uppgröftur og jarðsjármælingar

Uppgröftur fer fram á hverju ári í um fjórar vikur að vori eða sumri. Uppgraftarsvæðin eru staðsett við bæjarhús Árbæjar og safngestir geta fylgst með störfum fornleifafræðinga og nemenda á meðan á uppgrefti stendur. Svæðin eru til sýnis yfir sumartímann fram í september á ári hverju. Jarðeðlisfræðilegum aðferðum hefur einnig verið beitt við rannsóknir á bæjarstæðinu með notkun jarðsjár. Mælingar úr jarðsjánni gera fornleifafræðingum kleift að fá hugmyndir um hvað kann að leynast undir yfirborðinu og velja áhugaverð svæði til að rannsaka nánar með uppgrefti.

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.