Kornhúsið 17.05.2015 til 10.02.2019

Hjáverkin - atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970

Sýning sem fjallar um hvernig konur hafa aflað tekna í hjáverkum samhliða skyldustörfum til að sjá sér og sínum farborða.

Árbæjarsafn-Sýningar-Hjáverkin
Hjáverkin

Ábyrgð kvenna á eigin afkomu og afkomu fjölskyldunnar hefur almennt ekki verið mikils metin í samfélagslegri umræðu, bókmenntum og sögubókum. Langt fram eftir 20. öld voru karlar fyrirvinnur en konur voru heima. Framleiðsla kvenna hefur í gegnum tíðina verið vandlega falin og vantalin í hagrænum skilningi.

Sýningin Hjáverkin fjallar um þessa földu veröld kvenna, hvernig konum tókst að afla tekna í hjáverkum samhliða skyldustörfum. Auk matseldar, þrifa og barnauppeldis framleiddu þær fatnað á alla fjölskylduna, ræktuðu kartöflur og kál, gerðu slátur, suðu sultur og saft. Þær sinntu sjúkum og öldruðum, bjuggu til gjafir í stórum stíl og tóku að sér ýmis viðvik fyrir ættingja og vini.

Konur tóku heimilistækin í sína þjónustu og gerðu að atvinnutækjum. Prjónavélar, saumavélar og þvottavélar nýttust til atvinnusköpunar. Konur seldu máltíðir, leigðu út herbergi, þvoðu, straujuðu, saumuðu, prjónuðu og gerðu við fatnað. Þær tóku einnig að sér kennslu í ótal greinum, hannyrðum, tungumálum, tónlist og myndlist. Konur í öllum lögum samfélagsins gátu fundið sér sína hjáleið. Til þess nýttu þær hugvit sitt, útsjónarsemi, þekkingu og færni.

Á vefsvæðinu fjallkonan.is birtast brot úr sögu kvenna á Íslandi frá 1874 og til dagsins í dag. Hvatinn að gerð vefsvæðis sem helgað er sögu kvenna er þátttaka Minjasafns Reykjavíkur (nú Borgarsögusafn Reykjavíkur) árið 2005 í evrópsku samstarfsverkefni Making Wome´s History Visible in Europe sem styrkt er af Sókrates – Grundtvig 2 menntaáætlun Evrópusambandsins. Starfsfólki safnsins þótti við hæfi á nýrri öld að nota nýjan miðil til að miðla vitneskju um sögu kvenna á Íslandi, efla áhuga og hvetja konur og menn til frekari rannsókna á þessu sviði. Vefsvæðið er einnig á ensku og tengt við heimasíður þeirra safna og stofnana sem tóku þátt í þessu verkefni en þau er að finna í eftirtöldum löndum: Danmörku, Þýskalandi, Austurríki, Spáni og Grikklandi.

Hér má sjá vefinn fjallkonan.is.

Skráðu þig á póstlista árbæjarsafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.