back

Aðalstræti 10: Elsta hús miðborgarinnar opnað almenningi sem safnhús

23.05.2018 X

Þann 5. maí 2018 opnaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hið sögufræga hús að Aðalstræti 10 sem safn og sýningahús á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Aðalstræti 10
Aðalstræti 10

Aðalstræti 10 er eitt elsta og merkasta hús borgarinnar, í hjarta gamla miðbæjarins, en það var reist árið 1762 fyrir starfsemi verksmiðja Innréttinganna. Saga hússins í Aðalstræti 10 er samfléttuð sögu Reykjavíkurbæjar. Þegar það var reist var hér aðeins vísir að þorpi og íslenskt samfélag byggði enn fyrst og fremst á sjálfsþurftarbúskap í dreifbýli. 140 árum síðar var Reykjavík orðin að höfuðstað landsins, iðandi af mannlífi og á hraðri leið inn í nútímann. Nú er þetta fallega og merka hús orðið hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur og þar verður hægt að kynnast sögu borgarinnar og íbúa hennar. Í Aðalstræti 10 hefur fjölskrúðugur hópur karla og kvenna af hærri og lægri stéttum átt heimili sitt, notið veitinga og skemmtunar, keypt í matinn – eða bara átt leið um.

Í glæsilegu bakhúsinu eru tvær sýningar. Á jarðhæð verður opnuð ljósmyndasýningin Reykjavík 1918, en sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Borgarsögusafns Reykjavíkur í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands og er styrkt af afmælisnefnd viðburðarins. Höfundur texta sýningarinnar er skáldið Sjón og kemst hann svo að orði um viðfangsefni sýningarinnar: „Er maður hugsar til fólksins sem lifði árið 1918 þykir manni ótrúlegt að það hafi haft tíma til þess að lifa svokölluðu venjulegu lífi, það hljóti að hafa verið of önnum kafið að takast á við hina sögulegu viðburði til þess að elska, vinna, dreyma og þjást. En líkt og við sjálf — sem einnig þykjumst lifa viðburðaríka tíma — átti það sér sína daglegu tilveru, í sinni litlu en ört vaxandi Reykjavík, og um það bera ljósmyndirnar á þessari sýningu vitni.“

Á efri hæð bakhússins er sýningin Torfhúsabærinn Reykjavík sem byggir á rannsóknum  Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Sýningin fjallar um torfhús í Reykjavík frá upphafi landnáms til fyrstu áratuga 20. aldar. Í þúsund ár var Reykjavík torfhúsaþorp, svo tók við stutt timburhúsatímabil og í eina öld hefur Reykjavík verið steypuhúsabær. Torfhúsum 19. aldar eru gerð skil með samtímateikningum og ljósmyndum auk þess sem húsaskipan er skýrð með teikningum sem gerðar hafa verið á grundvelli ritgerðar Þórbergs Þórðarsonar Lifnaðarhættir í Reykjavík á síðara helmingi 19. aldar og ýmsum skjölum frá sama tíma.

Í húsinu er einnig starfrækt vönduð safnbúð Borgarsögusafns Reykjavíkur er býður upp á úrval sérhannaða minjagripa og gjafavöru.

Aðalstræti 10 er opið alla daga frá kl. 10-17. Aðgangseyrir er 1.600 kr. Ókeypis aðgangur fyrir börn, eldri borgara og öryrkja. Nemendur með gild nemendaskírteini greiða 1.100 kr. Aðgangseyrinn gildir líka á Landnámssýninguna í Aðalstræti 16.

Frá sýningunni Reykjavík 1918
Frá sýningunni Reykjavík 1918
Adalstraeti_10_torfhusabaerinn_reykjavik.jpg
Frá sýningunni Torfhúsabærinn Reykjavík

Upplýsingar

Upplýsingar

Borgarsögusafn

Grandagarði 8

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6300

Hafðu samband

Skrifstofan er opin:

Opnunartímar

Skrifstofa Borgarsögusafnsins er opin 09:00 - 16:00

Aðgangseyrir

Aðgangseyrir

1.000 -1.740 kr. sjá nánar á síðu hvers sýningarstaðar fyrir sig.

Börn 0-17 ára og öryrkjar

Ókeypis aðgangur

Nemendur með gild skólaskírteini

700-1.120 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

6.500 kr.

Menningarkort fyrir 67+, árskort á borgarsöfnin

1.800 kr.

ICOM og Físos korthafar

Ókeypis

Skráðu þig á póstlista borgarsögusafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira.