back

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí

17.05.2016 X

Borgarsögusafn verður með fjölbreytta dagskrá þann 18. maí í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum og að sjálfsögðu verður frítt inn á alla okkar sýningarstaði. Sjá nánari upplýsingar um dagskránna hér fyrir neðan.

Landnámssýningin_fjaðurpennaskrift.jpg
Börn að skrifa með fjöður á Landnámssýningunni

Landnámssýningin

Á Alþjóðlega safnadaginn 18. maí verður haldið upp á 10 ára afmæli Landnámssýningarinnar í Aðalstræti og býðst gestum frítt inn á safnið í tilefni dagsins. Einnig verða sérstök afmælistilboð í safnbúð sýningarinnar.

Kl. 12:10 Hádegisleiðsögn Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Hjörleifur var verkefnastjóri sýningarinnar og mun hann skýra frá gerð hennar og hvernig farið var að því að gera fornleifarannsókninni skil á jafn myndrænan og áhugverðan hátt eins og raun ber vitni.

Kl. 15:00 -17:00 fá gestir að spreyta sig á fjaðurpennaskrift á kálfsskinn með heimalöguðu jurtableki undir leiðsögn Svanhildar Maríu Gunnarsdóttur.

Kl. 17:00 mun Orri Vésteinsson fornleifafræðingur fara með gesti í útileiðsögn, en Orri hafði umsjón með fræðilegu innihaldi sýningarinnar. Gengið verður um bæjarstæði gamla Reykjavíkurbæjarins og sagt frá fornleifarannsóknum sem hafa verið gerðar á því í áranna rás.Gangan hefst við innganginn að Landnámssýningunni, á gatnamótum Aðalstrætis og Túngötu.

Þá verður á sýningunni hægt að stilla sér upp með vopn, hjálma og aðra víkingaleikmuni og smella af mynd. Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna!

Sýningin er opin frá 9:00-20:00 og eru allir velkomnir!

Frítt inn í tilefni afmælisins og hins Alþjóðlega safnadags.

Árbæjarsafn

Kl. 13:00 -17:00 verða húsin við torgið opin og krakkar geta leikið sér úti að vild.

Kl. 16:00 Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi bjóðum við gestum í létt spjall í einni af opnu geymslum safnsins, er nefnist Koffortið. Ingibjörg Áskelsdóttir forvörður fjallar um það hvernig safnið varðveitir gripi og lengir líftíma þeirra með réttri varðveislu fyrir komandi kynslóðir að njóta. Gestum er velkomið að koma með lítinn hlut að heiman og pakka honum á staðnum samkvæmt viðmiðum forvörslunnar. Koffortið er stórskemmtileg geymsla og margir sem finna þar gripi sem færa hugann mörg ár aftur í tímann. Áhugavert fyrir unga sem aldna að skoða hvað leynist þar!

Kl. 16:00 Fræðslufundur Húsverndarstofu um viðhald og viðgerðir eldri húsa í Kornhúsinu í Árbæjasafni. Á fundinum verður fjallað um yfirborðsmeðhöndlun utan húss þ.e. málun útvegggja, hurða, glugga og þaka. Fjallað verður um málun á timbri, steinsteypu, múr og málmum. Á fundinum munu sérfræðingar á sviði málunar og utanhússviðhalds fjalla um verndun yfirborðs byggingarefna fyrir tæringu, fúa og öðru niðurbroti. Fjallað verður um mismunandi efni og aðferðir við að hreinsa, verja, grunna og mála hús. Einnig munu framleiðendur og söluaðilar málningar kynna þau efni sem þeir hafa á boðstólum og mun gestum gefast kostur á að prófa efni.

Kl. 16:00 Í næsta húsi, Kjöthúsinu, verður hægt að fletta upp í húsaskrá með aðstoð starfsfólks Árbæjarafns og fá upplýsingar um gömul hús. Tilvalið fyrir þá sem vilja vita meira um sögu sinna húsa.

Allir velkomnir og frítt inn.

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Það er frítt inn á Sjóminjasafnið þann 18. maí í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum og eins er boðið upp á fríar leiðsagnir í varðskipið Óðin kl. 13, 14, 15 og 16.

Það eru þrjár sýningar á safninu sem ekki má missa af:

  •  Þorskastríðin sem fjallar um pólitískar deilur milli Íslands og Bretlands um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum á árunum 1958-1976.

  • Sjókonur sem segir sögu íslenskra kvenna sem sóttu sjóinn í fortíð og nútíð.

  • Frá örbirgð til allsnægta sem lýsir þeim miklu breytingum sem áttu sér stað um og eftir aldamótin 1900 í fiskveiðum Íslendinga og vinnslu aflans

Sjóminjasafnið í Reykjavík, kaffihúsið og safnbúiðin eru opin alla daga frá kl. 10:00 -17:00.

Upplýsingar

Upplýsingar

Borgarsögusafn

Grandagarði 8

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6300

Hafðu samband

Skrifstofan er opin:

Opnunartímar

Skrifstofa Borgarsögusafnsins er opin 09:00 - 16:00

Aðgangseyrir

Aðgangseyrir

1.000 -1.740 kr. sjá nánar á síðu hvers sýningarstaðar fyrir sig.

Börn 0-17 ára og öryrkjar

Ókeypis aðgangur

Nemendur með gild skólaskírteini

700-1.120 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

6.500 kr.

Menningarkort fyrir 67+, árskort á borgarsöfnin

1.800 kr.

ICOM og Físos korthafar

Ókeypis

Skráðu þig á póstlista borgarsögusafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira.