back
Dagskráin okkar á Barnamenningarhátíð
Varðskipið Óðinn
19. apríl kl. 19:30-22:00
Drullumall
Unglingar frá félagsmiðstöðinni Kampi taka að sér að skipulegga tónleika um borð í varðskipinu Óðni. Verkefnið er tónleikasería sem nefnist Drullumall og hefur verið framkvæmt síðan árið 2011 af unglingum á aldrinum 13-16 ára í tengslum við Barnamenningarhátíð. Þau öðlast reynslu í að skipuleggja stóran viðburð sem tónleikahald er og kynnast um leið nýrri og ferskri íslenskri tónlist. Krakkarnir fá þekkt bönd til liðs við sig sem koma fram af hugsjóninni einni saman og verða vonandi hvatning fyrir unglingana að spreyta sig sjálf á þessum vettvangi.
Frír aðgangur fyrir fullorðna í fylgd með börnum!
Sjóminjasafnið í Reykjavík
20. - 24. apríl kl. 10:00-17:00
Myndaflipp
Börn og unglingar í frístundaklúbbnum Hofinu setja upp myndasýningu í Hornsílinu á Sjóminjasafninu í Reykjavík á Barnamenningarhátíð. Í Hofið sækja 10-16 ára börn og ungmenni með fötlun þjónustu eftir að skóladegi þeirra lýkur. Krakkarnir taka myndir ýmist inni eða úti og vinna með þær í myndvinnsluforritum í Ipad. Svo velja þau myndir til þess að framkalla og setja á sýninguna. Þau kalla sýninguna Myndaflipp enda um óhefðbundnar myndir að ræða þar sem ímyndunaraflið ræður för.
Frír aðgangur fyrir fullorðna í fylgd með börnum!
Sjóminjasafnið í Reykjavík
24. apríl kl. 13:00-16:00
Barnavísindasmiðja Sjóminjasafnsins í Hornsílinu
Vísindamenn frá Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness fræða krakka um ýmislegt spennandi og forvitnilegt úr heimi vísindanna. Það má fikta og prófa og gera allskonar tilraunir.
Frír aðgangur fyrir fullorðna í fylgd með börnum!
Árbæjarsafn
21. apríl kl. 13:00-17:00
Barnahátíð Sumardaginn fyrsta á Árbæjarsafni
Opið verður á Árbæjarsafni sumardaginn fyrsta, þann 21. apríl og gestum boðið frítt inn í tilefni af Barnamenningarhátíð.
Í boði verður allskonar skemmtileg afþreying fyrir börn í fylgd með fullorðnum og má segja að barnamenning verði í hávegum höfð. Farin verður skrúðganga með skólahljómsveit Grafarvogs, hægt verður að búa til bangsa í Lækjargötunni og föndra fleira skemmtilegt. Á Kornhúsloftinu verður spennandi sögustund með bókasafnsverðinum frá Myrká kl. 14:00 og 15:00. Í Líkn verður ljósmyndahorn þar sem krakkar geta klæðst skrautlegum búningum og látið taka af sér myndir. Einnig verður hægt að fara í útileiki, ratleiki og fleira.
Opið verður í Dillonshúsi þar sem hægt er að kaupa gómsætar veitingar. Húsin í kringum torgið verða opin og við mælum með nostalgíukasti á sýningunni Neyzlan í Lækjargötunni, sýningunni Hjáverkin í Kornhúsinu og frískandi göngutúr um safnasvæðið.
Frír aðgangur fyrir fullorðna í fylgd með börnum!