back

Safnanótt á Borgarsögusafni 5. feb kl. 19-24

04.02.2016 X

Borgarsögusafn verður með skemmtilega dagskrá á safnanótt á öllum sýningarstöðum nema í Viðey. Hér fyrir neðan má sjá nákvæmlega hvað er í boði á hverjum stað þessa nótt.

Árbæjarsafn

Í Lækjargötuhúsinu verður stiklað á stóru um íslenska sönghefð og kveðskap allt frá landnámi til dagsins í dag, með vönduðum og fróðlegum tónleikum þar sem Hugi Jónsson baritón, Kári Allansson orgelleikari og Pétur Húni Björnsson söngvari og þjóðfræðingur munu spila og spjalla við gesti. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00.

Um safnið verður farin draugaleg ganga með leiðsögumanni kl. 19:00 og aftur kl. 21:00. Við mælum með því að yngri kynslóðin fari í fyrri gönguna en sú seinni gæti orðið of drungaleg fyrir litlar viðkvæmar sálir. Heyrst hefur að löngu framliðinn andi fylgi leiðsögumanni safnins hvert fótmál og geri vart við sig þegar síst má eiga von á! Athugið að aðeins komast 20 manns í hverja göngu í senn.

Sýningin Hjáverkin í Kornhúsin verður opin á Safnanótt en þar munu gestir getað rabbað við spákonurnar Evu Ingibjörgu og Sveinbjörgu Rósu Sumarliðadætur frá kl. 19.00 – 22.00. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér!?

Landnámssýningin

Hefur þig alltaf langað til að klæða þig eins og sannur víkingur? Þá er tækifærið núna því við höfum komið okkur upp góðu safni af búningum á fullorðna og börn. Hægt verður að stilla sér upp við flottan bakgrunn og taka mynd af sér á eigin síma eða myndavél. Gaman væri ef þið deilduð myndunum #landnámssýning

Frá 19:00-21:00 mun Svanhildur María Gunnarsdóttir frá Árnastofnun sýna gestum jurtablek sem hún hefur blandað sjálf og öllum býðst að rita á kálfskinn sem verkað hefur verið samkvæmt gömlum hefðum. Áferðin á kálfsskinninu mun koma óvönum fjaðurpennaskrifurum á óvart!

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Má bjóða þér upp á popp og bíó? Í myrkvuðum Bryggjusal Sjóminjasafnsins verður hin ódauðlega kvikmynd Jaws sýnd á Safnanótt frá kl. 19:00-24:00. Með myndinni verður hægt að maula á brakandi fersku poppi.

Sýning safnsins tekur á sig drungalegri blæ en vanalega og leikkonan landskunna Elva Ósk mun lesa þar upp draugasögur kl. 19:00, 20:00 og 21:00. Við mælum með að mæta í fyrsta lestur ef börn eru með í för en seinni tveir lestrar eru ekki jafn sakleysislegir.

Í Hornsílinu verður sýnd myndin Dökk ljós eftir Ryan Wood sem sýnir mögnuð norðurljós yfir Íslandi og var tekin á tveggja mánaða tímabili. Þar geta fjölskyldur einnig átt notalega stund, sest niður og föndrað saman grímur eftir eigin höfði.

Varðskipið Óðinn

Um borð í skipinu verða fyrrum áhafnarmeðlimir til skrafs en þeir muna tímana tvenna og segja glaðir frá sögum frá því að skipið sigldi um höfin blá. Í matsalnum verður hægt að tylla sér og horfa á íslensku bíómyndirnar Brim, Djúpið og Nýtt líf en þær fjalla allar um hafið með einum eða öðrum hætti. Myndirnar munu rúlla á skjánum frá kl. 19:00 – 23:00 en þá lokar skipið. Maxipopp og pepsi í boði og notalega stemning.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Kvikmyndagerðarmaðurinn Þorgeir Guðmundsson mun fjalla um sýningu Friðgeirs Helgasonar, Stemning, á Ljósmyndasafninu í Reykjavík. Leiðsögnin fer fram kl. 20:00 Þorgeir vinnur að heimildarmynd um Friðgeir, sem hefur ýmsa fjöruna sopið og lifað áhugaverðu lífi sem vafalaust endurspeglast í ljósmyndum hans. Brot úr kvikmyndinni eru sýnd á Ljósmyndasafninu í tengslum við sýninguna.

Hljómsveitin Hráefni kemur fram kl. 21:00 og 22:00 og spilar frumsamda stemningstónlist. Þið verðið ekki svikin af þessu bandi enda meðlimir þau Valdemar Flygenring (söngur og gítar), Þorleifur Guðjónsson (kontrabassi), Beggi Morthens (gítar) og Þórdís Claessen (slagverk).  Í húsinu verður mikið fjör á öllum hæðum og við hvetjum ykkur til að kíkja á dagskrána í Grófarhúsi.

Upplýsingar

Upplýsingar

Borgarsögusafn

Grandagarði 8

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6300

Hafðu samband

Skrifstofan er opin:

Opnunartímar

Skrifstofa Borgarsögusafnsins er opin 09:00 - 16:00

Aðgangseyrir

Aðgangseyrir

1.000 -1.740 kr. sjá nánar á síðu hvers sýningarstaðar fyrir sig.

Börn 0-17 ára og öryrkjar

Ókeypis aðgangur

Nemendur með gild skólaskírteini

700-1.120 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

6.500 kr.

Menningarkort fyrir 67+, árskort á borgarsöfnin

1.800 kr.

ICOM og Físos korthafar

Ókeypis

Skráðu þig á póstlista borgarsögusafns

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira.