Fræðslustefna
Borgarsögusafn Reykjavíkur einsetur sér að veita fjölbreytta fræðslu fyrir alla gesti og stuðla að jöfnu aðgengi allra. Nám á safni er margbreytilegt og það á jafnt við formlegt nám og þekkingarleit einstaklinga og hópa. Nám er ferli sem krefst virkni og mótast af miklu leyti af fyrri reynslu gestsins, menningu hans og umhverfi. Safnfræðslan snýst um að virkja gesti til að afla sér þekkingar í samtali við frjóan vettvang safneignar, sýninga og annarrar miðlunar. Fræðslustarf Borgarsögusafns miðar að því að auka vægi þátttöku og sköpunar í starfi sínu.
Markmið
- að bjóða upp á fræðslu við hæfi fyrir hvern árgang skólastigsins, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem tekur mið af aðalnámskrá
- að bjóða nemendum iðnnáms og háskóla uppá sérsniðna fræðslu
- að vinna markvisst og skipulega að því að móta safnfræðslu í þágu jafnréttis kynjanna og margbreytilegs samfélags
- að bjóða upp á fræðslu sem sinnir þörfum ólíkra hópa samfélagsins
- að gefa gestum tækifæri til þátttöku og hvetja til umræðna í leiðsögnum og viðburðum safnsins
- að bjóða upp á aðstöðu fyrir skapandi starf barna á öllum sýningarstöðum
- að veita erlendum gestum innsýn í margslungna sögu og menningu Reykjavíkur
- að allar upplýsingar um safnfræðslu séu aðgengilegar á heimasíðu safnsins, ásamt ítarefni bæði til undirbúnings og úrvinnslu heimsóknar
- að skipa rýnihópa um gerð fræðsluefnis