back
Barnamenningarhátíð á Borgarsögusafni 2023
Borgarsögusafn býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra dagana 18-23. apríl. Frítt er inn á alla viðburði.
ÁRBÆJARSAFN – FIMMTUDAGINN 20. APRÍL
Sumardagsins fyrsta hátíð 13:00-16:00
13:00-13:20 Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts spilar og marserar um safnið
13:00-16:00 Þrautir og útibras, kökusala og kandífloss með skátum frá Árbúum
13:00-15:00 Sumarkveðjusmiðja í Lækjargötu.
14:00-16:00 Listasmiðja í Kornhúsinu
14:00-14:20 Álfasögur með Dagrúnu Jónsdóttur þjóðfræðingi við Álfhólinn
15:00-15:20 Álfasögur með Dagrúnu Jónsdóttur þjóðfræðing við Álfhólinn
13:30-15:30 Börnum boðið upp á lestarferð í kringum torgið í eimreið safnsins
14:00-16:00 Börnum boðið á hestbak á barngóðum hestum frá reiðskólanum Faxaból.
14:30-15:00 Vatnsberahlaup. Boðhlaup fyrir börn og foreldra. Varúð það gæti sullast vatn!
15:30-16:00 Vatnsberahlaup. Boðhlaup fyrir börn og foreldra. Varúð það gæti sullast vatn!
13:00-16:00 Stolni safngripurinn – Þrautaleikur
13:00-16:00 Lummur og tóvinna í gamla Árbænum
LANDNÁMSSÝNING - LAUGARDAGINN 22. APRÍL
13:00-15:00 Leirlistasmiðja í landnámsstíl
Í smiðjunni fá börnin innblástur frá gripum sem landnámsfólk kom með til Íslands. Skoða myndir sem tilheyra tímabilinu og spá í keltneska og rómanska munsturgerð. Móta síðan hlut úr sjálfharðnandi leir.
Rannveig Jónsdóttir er myndlistarkennari. Hún hefur kennt myndmennt um árabil og rannsakað tengsl myndlistar, munstra og stærðfræði í meistaraverkefni. Rannveig teiknar og málar. Hún hefur haldið einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og myndlýst námsefni.
AÐALSTRÆTI: LANDNÁMSSÝNINGIN OG REYKJAVÍK ... SAGAN HELDUR ÁFRAM - SUNNUDAGINN 23. APRÍL
14:30-15:30 Fjölskylduleiðsögn á pólsku
Borgarsögusafn býður upp á fjölskylduleiðsögn á pólsku sunnudaginn 23. apríl, kl. 14:30-15:30, í Aðalstræti. Þar eru tvær sýningar sem rekja sögu Reykjavíkur: Landnámssýningin og sýningin Reykjavík...sagan heldur áfram. Marta Wieczorek, aðstoðarskólastjóri Pólska skólans í Reykjavík, sér um leiðsögnina.
Á Landnámssýningunni er fjallað um landnám í Reykjavík og miðpunktur hennar er rúst landnámsskála frá 10. öld sem er varðveittur á sínum upprunalegum stað. Reykjavík...sagan heldur áfram teygir sig neðanjarðar frá Landnámssýningunni yfir í elsta hús Kvosarinnar, Aðalstræti 10. Sýningin er framhald af Landnámssýningunni og rekur sögu byggðar í Reykjavík allt til samtímans. Áhersla er lögð á að draga fram þætti úr sögu Reykjavíkur, varpa ljósi á daglegt líf íbúanna og tíðarandann í aldanna rás.
Leiðsögnin er ókeypis og öll sem tala pólsku eru boðin hjartanlega velkomin. Viðburðurinn er unnin í samstarfi við Móðurmál – samtök um tvítyngi.
SJÓMINJASAFN - SUNNUDAGINN 23. APRÍL
13:00-13:30 Sögustund um hafverur og sæskrímsli
Allt frá landnámi hefur fólk hér á landi sagt hvort öðru sögur af hinum ýmsu hafverum og skrímslum sem lifa í sjónum eða við strendur Íslands. Sögurnar voru sagðar jafnt til skemmtunar og fræðslu. Fræðslan fólst í því að kunna að passa sig á þessum verum og vita hvað gera skyldi ef viðkomandi myndi lenda í návígi við þær. Skemmtunin fólst í því að hlæja og vera spennt saman, ásamt því að upplifa hræðslu, sem hægt var að vinna bug á með því að vita hvernig skyldi verja sig gegn hinu og þessu skrímslinu.
Þær eru margar þjóðsögurnar og sagnirnar sem tengjast hafinu og þeim verum sem það hýsir en í okkar nútíma heimi hafa ekki margir heyrt af þessum verum og úr því viljum við bæta.
Björk Bjarnadóttir umhverfis-þjóðfræðingur og sagnakona mun segja sögurnar í gegnum alda gamla tækni og list, sem er sagnamennskan sjálf. Sögurnar verða sagðar, en ekki lesnar upp. Á því er mikill munur og nær sagnalistin ávallt mun betur til áheyrenda heldur en upplesturinn. Manneskjan hefur notið þess að segja sögur og hlusta á sögur allt frá upphafi.
13:30 – 15:00 Listasmiðja: Við erum jörðin – við erum vatnið
Smiðjan dregur nafn sitt af yfirstandandi sýningu á safninu en í henni verður opið flæði fyrir fólk til að koma og snerta á fjölbreytni litanna. Höndin leiðir okkur í gegnum ólíkar birtingarmyndir okkar innri heima. Sem síbreytileg efnasambönd, ýmist fljótandi eða föst form. Við erum náttúran, í öllum sínum myndum. Okkar líkamar skapaðir af sama efni. Með því að draga fram okkar innri heima, í gegnum ólík form, snertum við á þessum margbreytileika. Þetta umbreytingarferli vísar í náttúruna sem kennara okkar. Í hinu listræna ferli munum við eftir hinu óendalega fjölbreytileika og ófyrirsjáanleika lífsins. Þar sem í raun hvað sem er gæti birst. Við höfum ekki stjórn á öllu, það sama er hægt að segja um efniviðinn. Sama hvort það séu líkamar okkar, náttúra, eða hver sá listræni miðill er við kjósum að velja; þá er margt sem birtist okkur í hinu óvænta.
Við hvetjum þátttakendur til þess að skoða sýninguna Við erum jörðin – við erum vatnið og fyllast andargift áður en haldið er í listasmiðjuna. Á sýningunni fáum við óvenjulega innsýn í ægifögur form náttúrunnar. Ljóðræna sýn á hið agnarsmáa í hinu risastóra, sem tækninýjungar veita okkur. Um leið er verkið dreyminn sjónrænn leikur við síbreytanleg form sem skapast stöðugt í kringum okkur en við komum alla jafna ekki auga á. Okkur er boðið í ferðalag nánast inn í efnin sjálf, sameiningu og umbreytingarferli þeirra.
Umsjón með listasmiðjunni hefur Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir myndlistarkona.