back

Boð á opnun á sýningu Grétu S. Guðjónsdóttur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

13.09.2023 X

19, 24, 29, 34, 39 – hlutskipti og örlög sýning Grétu S. Guðjónsdóttur opnar laugardaginn 16. september kl 15 í LJósmyndasafni Reykjavíkur.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður þér að vera við opnun sýningarinnar

Gréta S. Guðjónsdóttir

19, 24, 29, 34, 39

Hlutskipti og örlög

laugardaginn 16. september kl. 15 í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Ólöf Nordal og Óttarr Proppé opna sýninguna. Ólöf Nordal er listamaður og prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands. Óttarr Proppé, HAM-ari með meiru, og fyrrum borgarfulltrúi og þingmaður.

Léttar veitingar í boði.

19, 24, 29, 34, 39 – hlutskipti og örlög er yfirskrift sýningar Grétu S. Guðjónsdóttur sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 16. september kl. 15. Á sýningunni er röð mynda sem Gréta tók af níu einstaklingum á 20 ára tímabili ásamt hugleiðingum þeirra um lífið og tilveruna.
 
Hugmyndina að sýningunni fékk Gréta fyrir hart nær tuttugu árum þegar hún kenndi 19 ára ungmennum ljósmyndun. Margir nemenda hennar höfðu sterkar lífsskoðanir sem oftar en ekki gengu gegn viðhorfum eldri kynslóða sem þeim fannst að hefðu engan skilning á þeirra lífi. Þessi lífsviðhorf endurspegluðust líka í ögrandi klæðaburði þeirra og hárgreiðslum. Rifjaðist það þá upp fyrir Grétu að einmitt svona hefði henni liðið á þessum árum og fór þá að hugsa um hvernig lífið endurtekur sig í sífellu, hvernig allt fer í hringi og manneskjan ávallt söm við sig.

Á næstu tuttugu árum fylgdi Gréta níu nemendum sínum eftir í myndum og texta. Fyrsta myndatakan fór fram árið 2002 og síðan á fimm ára fresti eftir það; þegar einstaklingarnir voru 19, 24, 29, 34 og núna síðast 39 ára. Uppleggið er alltaf hið sama. Fyrst tekur hún svarhvítar myndir af þeim í fullri stærð í myndveri. Í framhaldi af því tekur hún myndir af þeim á heimili þeirra. Þá bað hún þau líka að skrifa niður hugleiðingar sínar um hvar þau eru stödd í lífinu þá stundina og hvar þau sjá sig eftir fimm ár og hins vegar tíu ár.

Nú fimm tökum síðar er svo komið að nemendurnir eru orðnir eldri en hún var þegar þau hófu þessa vegferð saman. Eða eins og Gréta sjálf segir: „Þau eru orðin þessi gömlu sem eiga erfitt með að setja sig í spor 19 ára ungmennis.“

Sýningunni lýkur sunnudaginn 10. desember 2023.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.