back

Borgarsögusafn fyrirmyndarstofnun 2020

15.10.2020 X

Borgarsögusafn lenti í 3. sæti þriðja árið í röð yfir fyrirmyndarstofnanir með starfsmenn færri en 50.

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um val á Stofnun ársins 2020 í gegnum streymi 14. okt. en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna í könnun félagsins.

Það er skemmst frá því að segja að Borgarsögusafn Reykjavíkur hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarstofnun ársins 2020, en safnið lenti í 3. sæti í sínum flokki, þriðja árið í röð.

Þetta er virkilega dýrmæt viðurkenning á starfinu sem fer fram á safninu, hvar öflugur, jákvæður og samhentur hópur starfar við að varðveita og miðla fjölbreyttri sögu og menningu borgarinnar.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir á óvissutímum og verður starfsmönnum safnsins mikill hvati til áframhaldandi starfa.

Könnunin náði til um 12 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneyti og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur til að gera vel í starfsmannamálum og að auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.

Í flokknum „minni stofnanir,“ með 5-49 starfsmenn, eru einnig valdar fimm fyrirmyndarstofnanir en þær eru auk Aðalskrifstofu Akraneskaupstaðar (sem er í fyrsta sæti nú og lenti í öðru sæti í fyrra), Skrifstofa velferðarsviðs Rvk. (sem sigraði á síðasta ári), og Borgarsögusafn Reykjavíkur (sem einnig lenti í þriðja sæti í fyrra), ásamt Listasafni Reykjavíkur og Selásskóla.

Fyrirmyndarstofnanir (færri en 50 starfsmenn)
1. Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar
2. Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar
3. Borgarsögusafn Reykjavíkur
4. Listasafn Reykjavíkur
5. Selásskóli

Hástökkvarar sveitarfélaga og borgarstofnana
Hástökkvari könnunarinnar er Umhverfis- og skipulagssvið (USK) Reykjavíkurborgar. Við útreikning á hástökkvurum er fyrst reiknuð raðeinkunn fyrir allar stofnanir á bilinu 1-100 og síðan er reiknaður munur á raðeinkunn milli ára.

Ljósmynd af merkinu Fyrirmyndarstofnun 2020