back

Dagskrá Borgarsögusafns á Menningarnótt laugardaginn 19. ágúst.

16.08.2017 X

Borgarsögusafn opnar dyr sínar á Menningarnótt 19. ágúst og býður öllum gestum ókeypis aðgang í tilefni dagsins. Boðið verður upp á skemmtilega dagskrá í þremur af fimm stöðum safnsins: Landnámssýningunni, Sjóminjasafninu í Reykjavík og Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Víkingar og eldsmiðir í Landnámssýningunni

Í Aðalstræti 16 eru tvær áhugverðar sýningar, annarsvegar fastasýning um landnámið og hinsvegar ný barnvæn sýning sem nefnist Dýrin – leyndardómur landnámssins.

Landnámssýningin

Á sýningunni er fjallað um landnám í Reykjavík og byggt er á fornleifarannsóknum sem fram hafa farið í miðbænum. Miðpunktur sýningarinnar er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu.

Dýrin - leyndardómur landnámsins

Sýningin fjallar um mikilvægi húsdýra á landnámsöld með hjálp fornleifarannsókna. Heimskautarefurinn, eða íslenska tófan, var eina spendýrið á Íslandi þegar fyrsta landnámsfólkið frá Norður-Evrópu kom hingað.

Við inngang safnsins verða staddir eldsmiðir milli kl. 15-22 sem láta hamarshöggin dynja þegar þeir móta járn eftir gömlum aðferðum. Í fjölskylduhorni sýningarinnar verður hægt að tefla, leysa þrautir og taka af sér ljósmynd í vígalegum víkingaklæðum.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Opið á Menningarnótt frá kl. 9-22.

Bæjarlistamenn Akraness í Sjóminjasafninu í Reykjavík

Á Messanum Grandi, nýjum veitingastað til húsa í Sjóminjasafninu, bjóða bæjarlistamenn Akraness upp á tónlistarflutning, myndlist, ljósmyndir, leirlistaverk, skartgripi, vefnað og svo mætti áfram telja milli kl. 13:30-20:00. Í húsinu verða einnig matvælaframleiðendur frá Akranesi að kynna eigin framleiðslu og gefa gestum að smakka. Tilefnið eru  áætlunarsiglingar sem hófust nýlega milli Akraness og Reykjavíkur, nánar tiltekið við Vesturbugt sem er alveg við Sjóminjasafnið í Reykjavík.

Varðskipið Óðinn verður opið fyrir gesti milli kl. 13-20 og munu fyrrum varðskipsliðar standa vaktina og taka á móti gestum. Þeir hafa siglt um heimsins höf og hafa frá mörgu skemmtilegu að segja um lífið um borð á árum áður.

Þá er börnum boðið í laufléttan ratleik um sýningu safnsins, og milli kl. 13-17 verður fjölskyldusmiðja á 2. hæð Sjóminjasafnsins þar sem fiskitegundir á íslensku myntinni eru í forgrunni og hægt að koma með hugmyndir að nýrri mynt, spreyta sig á Morse púslum, hnútaþraut og sjóorustu.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Opið á Menningarnótt frá kl. 10-21.

Melankólía, ný sýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Í Skoti Ljósmyndasafnsin í Reykjavík verður opnuð ný sýning eftir Laufeyju Elíasdóttur sem nefnist Melankólía. Verkið er innblásið af baráttu einstaklingsins við sjálfan sig. Listin er brunnur sem geymir allt, dæmir ekki, gagnrýnir ekki, elskar allt. Opnunin stendur frá kl. 16-18 og verða léttar veitingar í boði.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Opið á Menningarnótt frá kl. 13-22.