back

Dagskrá Borgarsögusafns í vetrarfríinu

27.02.2020 X

28. feb. -2. mars 2020. Frítt inn fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

ÁRBÆJARSAFN

Vindóróasmiðja til heiðurs góu

Laugardagur 29. febrúar kl. 13-15

Í tilefni af upphafi góu verður haldin vindóróasmiðja á Árbæjarsafni laugardaginn 29. febrúar kl. 13:00-15:00.

Anna Þóra Karlsdóttir myndlistarkennari mun leiða smiðjuna. Hráefni í vindóróa verður á staðnum og eru allir velkomnir. Athugið að aðra daga vetrarfrísins verður hægt að gera vindóróa upp á eigin spýtur í safnhúsi sem nefnist Líkn.

Góa er fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar eftir gömlu íslensku tímatali. Í gamla daga tíðkaðist að hengja upp rauðan ullarlagð út í glugga til að blíðka góuna í von um gott veður. Í þessari smiðju munu krakkar útbúa mórauðan ullaróróa í þessum sama tilgangi.

Að lokinni vindóróagerð eru gestir hvattir til að kíkja inn í húsin á safninu.

Yndislega kaffihúsið á Árbæjarsafni í Dillonshúsi verður opið milli klukkan 13:00-16:00 þennan dag með góutilboð á pönnsum, vöfflum og kakó.

LANDNÁMSSÝNINGIN

Búningar, barnahorn og ratleikur

Föstudagur 28. febrúar – mánudags 2. mars

Börn vita fátt skemmtilegra en að klæða sig í búning og Landnámssýningin er kjörinn vettvangur fyrir þann leik. Í vetrarfríinu gefst þeim tækifæri til að klæða sig upp í víkingaklæði, bera vopn og hjálma og láta smella af sér mynd. Barnahornið er á sínum stað og ratleikur um sýninguna.

LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR

Myndaþraut um sýninguna  „···“

Föstudagur 28. febrúar – mánudags 2. mars

Í vetrarfríinu verður boðið upp á skemmtilega myndaþraut um sýninguna  „···“ eftir Valdimar Thorlacius. Sýningin er í senn sjónræn túlkun á upplifun Valdimars af smábæjum, fólki, veðri og víðáttu á Íslandi og heimild um lífið í þorpinu. Þrautin gengur út á samveru og samvinnu fjölskyldunnar sem þurfa að hjálpast að við að leysa það sem fyrir þau er lagt.

Á safninu er hægt að skoða gamlar ljósmyndir á skjám, til dæmis eru þar fjöldi mynda af börnum við ýmis tilefni í leik og störfum. Það er gaman að þysja sig inn í myndirnar og skoða smáatriðin og velta fyrir sér lífi og aðstæðum barnanna á ólíkum tímum.

SJÓMINJASAFNIÐ Í REYKJAVÍK

Fjölskylduþraut um grunnsýninguna Fiskur & fólk

Föstudagur 28. febrúar – mánudags 2. mars 10:00-17:00

Létt þraut um grunnsýningu safnsins: Fiskur og fólk. Hentar vel fyrir fjölskyldur að leysa saman í vetrarfríinu í Reykjavík 28. febrúar- 2. mars.

Neðansjávarjóga

Sunnudagur 1. mars kl. 13:00 og 14:00

Sjóminjasafnið verður útbúið sem blátt og umvefjandi hafdjúp og þar verður boðið upp á jóga undir róandi neðarsjávarhljóðum og slakandi gongómi.

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir leiðir jóga og spilar á Sedna gong sem heitir eftir norrænni sjávargyðju. Tónninn úr slíku gongi er C tónn sem er samhljómur jarðar en hann er áþekkur hljómi sem heyrist utan úr geimnum. Þessi samhljómur hjálpa fólki að slaka á og finna innri frið.

Dýnur verða á staðnum og eru allir velkomnir, stórir sem smáir.

Frítt inn fyrir fullorðna í fylgd með börnum.