back

Dagskrá Borgarsögusafns í vetrarfríinu 20.-23. feb. 2021

17.02.2021 X

Það verður fjölbreytt dagskrá í boði á Borgarsögusafni í vetrarfríi grunnskólanna í Reykjavík og að venju verður ókeypis aðgangur fyrir fullorðna í fylgd barna.

ÁRBÆJARSAFN

Hressandi útileikir á safni

Árbæjarsafn er opið alla daga milli kl. 13-17 og í vetrarfríinu verður ókeypis fyrir fullorðna í fylgd með börnum. Það er forvitnilegt að kíkja inn í safnhúsin sem hver hafa sína sögu að segja og gaman að heilsa upp á landnámshænurnar sem eru á vappi um svæðið þegar vel viðrar. Í tilefni af vetrarfríi hvetja starfsmenn safnsins gesti til þess að nýta útsvæðið til leikja og foreldrana til að rifja upp alla skemmtilegu útileiki barnæsku sinnar. Á safninu er auðvelt að fela sig, hlaupa og leika sér í leikjum eins og eina króna, hlaupa í skarðið, fram fram fylking og dimmalimm.

LANDNÁMSSÝNINGIN

Könnunarleiðangur um Kvosina – Fjölskylduleiðangur um elsta hluta Reykjavíkur

Í vetrarfríinu verður boðið upp á nýjan fjölskylduleiðangur á Landnámssýningunni. Leikurinn hefst inni með nokkrum þrautum sem leysa þarf með því að skoða sýninguna en leiðir þátttakendur svo út undir bert loft góðan spöl um Kvosina. Tilvalinn þrautaleikur fyrir alla fjölskylduna til að njóta bæði úti og inni á eigin vegum og kynnast miðbænum á  nýjan hátt. Að vanda er boðið frítt inn á Landnámssýninguna fyrir fullorðna í fylgd með börnum í tilefni af vetrarfríi.

Slóð á fjölskylduleiðangur um elsta hluta Reykjavíkur er hér.

LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR

Myndir ársins 2020

Í Ljósmyndasafninu eru myndir fordæmalausa ársins 2020 sýndar á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Á sýningunni eru myndir frá liðnu ári sem gaman að skoða og rifja upp þetta sérstaka ár. Myndirnar voru valdar af óháðri dómnefnd úr öllum innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara.

Ókeypis aðgangur er fyrir fullorðna í fylgd barna.

SJÓMINJASAFNIÐ Í REYKJAVÍK

Fjölskylduleikir um Sjóminjasafnið fyrir fundvísa krakka!

Grunnsýning safnsins Fiskur & fólk er hafsjór af forvitnilegum sjávardýrum, skipum og sardínudósum sem er fróðlegt að skoða. Fjölskylduleikirnir leiða unga gesti um sýningu Sjóminjasafnsins og hvetja krakka til að velta vöngum yfir öllu því skrýtna og skemmtilega sem tengist sjósókn. Safnið er úti á Granda og stendur rétt við höfnina þar sem stutt er út á bryggju.

Ókeypis aðgangur er fyrir fullorðna í fylgd barna.

VIÐEY

Eyjaferð í Reykjavík

Sigling út í Viðey er góð hugmynd að samveru fyrir vini og vandamenn í vetrarfríinu. Siglingin tekur nokkrar mínútur og er skemmtileg byrjun á hressilegum útivistardegi í Viðey. Á eyjunni eru ótal margir skemmtilegir staðir sem vert er að skoða. Það eru fjörur, hólar, hellar og skútar, listaverk, fuglalíf og aldargömul hús. Þið fáið kort af eyjunni í miðasölunni og þar finnið þið leiðina að öllum þessum stöðum.  

Ef ykkur langar í fjöruferð er góð hugmynd að skoða fyrst klukkan hvað er flóð og fjara. Það má gera með því að skoða flóðatöflu á netinu.

Foreldrar athugið að í Viðey er að finna kletta, skurði og tjarnir sem geta verið varhugaverð. Börn eru á ábyrgð foreldra eða annarra forráðamanna.

Vinsamlegast athugið að greiða þarf fyrir bátsferðina til og frá Viðey.

Ljosmyndasafn_Reykjavíkur_alb_001_014_1-2.jpg
Ljósmyndari: Jóhann Vilberg Árnason (1942-1970) Apríl 1966, börn að leik í bústaðahverfinu í Reykjavík.