back
Friðarsúlan tendruð 9. okt. kl. 21.
Friðarsúlan í Viðey, listaverk Yoko Ono, verður tendruð í 14. sinn á fæðingardegi tónlistarmannsins Johns Lennon föstudaginn 9. október klukkan 21. Lennon hefði orðið áttræður á árinu.
Vegna heimsfaraldurs COVID-19 verður enginn viðburður í Viðey í tengslum við tendrunina en streymt verður beint frá eynni þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri flytur ávarp og að því loknu verður kveikt á Friðarsúlunni. Auk streymis á vef imaginepeace.com, vef borgarinnar og Facebooksíðu verður sýnt beint frá tendruninni á RÚV í þættinum Vikan með Gísla Marteini.
Yoko Ono (f. 1933) gerði verkið til minningar um eiginmann sinn John Lennon árið 2007. Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur Lennons.
Yoko Ono vill koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
Kæru vinir
Þann 9. október 2020 verður Friðarsúlan í Reykjavík tendruð til minningar um eiginmann minn John Lennon sem hefði orðið áttræður í ár.
Ég vona að allir fagni tendrun Friðarsúlunnar með okkur. Hægt verður að fylgjast með tendruninni í beinni útsendingu á vefsíðu okkar HÉR og hægt er að nálgast um heim allan.
Það er mikilvægt að muna að í hverju okkar býr kraftur sem getur breytt heiminum. Kraftur virkar á dularfullan hátt. Við þurfum ekki að gera mikið. Sjáum fyrir okkur dómínó-áhrif og hugsum um FRIÐ. Hugsanir eru smitandi. Sendum þær út. Skilaboðin dreifast hraðar en við höldum.
Það er kominn tími til aðgerða.
Aðgerðin er FRIÐUR
Hugsum um FRIÐ, framkvæmum FRIÐ, dreifum FRIÐI
FRIÐUR er AFL!
Takk, takk, takk
Ég elska ykkur!
ást,
Yoko Ono Lennon
1. september 2020


Friðarsúlan er listaverk sem tendruð er ár hvert til minningar um tónlistarmanninn John Lennon (1940-1980) og lýsir upp næturhimininn sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Það var ósk Yoko Ono að súlan risi í Reykjavík þar sem Ísland er friðsamt, herlaust land, staðsett mitt á milli Norður Ameríku og Evrópu. Verkið er í formi „óskabrunns“ þar sem grafið er á orðin „Hugsa sér frið“ á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.
Verkið er nátengt öðru listaverki Yoko Ono; Wish Tree frá 1996. Þar hefur hún boðið öllum sem vilja að skrifa þeirra persónulegu óskir um frið og hengja á greinar innlendra trjátegunda. Óskunum hefur hún safnað saman í gegnum áratugina og telja þær yfir milljón eins og er. Óskirnar eru teknar saman víðsvegar um heiminn og þær sendar til Íslands. Þeim er svo komið fyrir í brunni Friðarsúlunnar. Ljósgeisli súlunnar lýsir svo á táknrænan hátt kröftugum óskum fólks frá öllum heimshornum upp í himinhvolfið, hvatningarljós friðar og samstöðu. Óskatrjám er til dæmis komið fyrir í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur ár hvert á sama tíma og Friðarsúlan er tendruð.
„Ég vona að friðarsúlan muni lýsa upp óskir um heimsfrið hvaðanæva að úr veröldinni og veita hvatningu, innblástur og samstöðu í heimi þar sem nú ríkir ótti og ringulreið. Sameinumst um að gera friðsæla veröld að veruleika.“ – Yoko Ono
Upplýsingar um óskatrén og hvernig skal setja þau fram er að finna á vefsíðu Friðarsúlunnar www.imaginepeacetower.com