back

Haustfrí 21.-25. október 2022

20.10.2022 X

Borgarsögusafn býður fjölskyldur velkomnar í haustfríi grunnskólanna í Reykjavík dagana 21.-25. október en þá daga er ókeypis aðgangur í safnið fyrir fullorðna í fylgd barna. Í tilefni af haustfríinu verður bryddað upp á ýmsu skemmtilegu fyrir börnin á öllum okkar stöðum.

Árbæjarsafn

Opið alla daga 13:00-17:00

KÍKT Í KOFFORTIÐ er léttur leiðangur um munageymsluna safnsins þar sem leitað er að gripum og fræðst um þá um leið. Þá er forvitnilegt að kíkja inn í safnhúsin sem hver hafa sína sögu að segja.

KOMDU AÐ LEIKA er leikafangasýning þar sem börn mega handfjatla og leika sér með allskonar leikföng frá ýmsum tímum.

Aðalstræti 10 & 16: Landnámssýningin og Reykjavík…sagan heldur áfram

Opið alla daga 10:00-17:00

Miðaldaleikir, rúnapúsl, og ratleikurinn: PUNKTARNIR Í KVOSINNI eru meðal þess sem börn geta haft gaman af á Landnámssýningunni í haustfríi grunnskólanna dagana 21.-25. okt. Þá geta krakkar skemmt sér við að klæðast víkingafatnaði.

Í Aðalstræti 10 & 16 eru tvær sýningar sem segja frá sögu Reykjavíkur: LANDNÁMSSÝNINGIN og REYKJAVÍK…SAGAN HELDUR ÁFRAM en sú sýning opnaði í maí 2022. Við hvetjum fjölskyldur til að skoða báðar sýningarnar í haustfríinu en þær eru samtengdar með göngum á milli húsanna.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Opið: Mán-fim 10:00-18:00, fös 11:00-18:00, helgar 13:00-17:00

Ljósmyndasafnið býður upp á skemmtilega MYNDAÞRAUT um sýninguna KERFIÐ í haustfríinu. Á sýningunni leitast ljósmyndarinn Elvar Örn Kjartansson við að fanga á mynd kerfið sem við lifum og hrærumst í. Allt frá rörum í skólphreinsistöð að þingsal Alþingis Íslands, frá myndum af fjárhúsi og gróðurhúsi að lager verslana.
Oft tökum við kerfinu sem sjálfsögðum hlut þar til það bilar og ekkert vatn kemur úr krananaum þegar skrúfað er frá. Kranavatnið kemur frá Gvendarbrunnum, en hvernig líta Gvendarbrunnar út? Svarið er á sýningunni.
Myndaþrautin gengur út á samveru og samvinnu fjölskyldunnar um leið og sýningin er skoðuð.

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Opið alla daga 10:00-17:00

Sjóminjasafnið í Reykjavík býður upp á létta og skemmtilega fjölskylduleiðsögn í haustfríi grunnskólana kl. 11:00 föstudag, mánudag og þriðjudag.

Fjölskylduleikur í boði alla daga sem leiðir gesti áfram um grunnsýningu safnsins: FISKUR OG FÓLK – SJÓSÓKN Í 150 ÁR. Þrjú mismunandi erfiðleikastig í boði.

WindWorks blása til tónleika í Sjóminjasafninu laugardaginn 22. október kl. 14:00. Ármann Helgason og Helga Björg Arnardóttir leika á klarinett.

Efnisskrá:

  • Bernhard Crusell (1775-1838)
  • Duo nr.2 í d moll (1821)
  • Elín Gunnlaugsdóttir (1965)
  • Spil III (2013)
  • Francis Poulenc (1899-1963)
  • Sonate pour deux clarinets (1918)

Enginn aðgangseyrir er á tónleikana en greiða þarf aðgangseyri inn á söfnin. Í tilefni af haustfríi grunnskólanna fá fullorðnir í fylgd með börnum frítt inn á safnið. Aðrir greiða 2.050 kr.
Tónleikarnir eru styrktir af Borgarsjóði og Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar.