back
Hrekkjavaka Árbæjarsafns
Hvað? Hrekkjavaka
Hvenær? Fimmtudaginn 31. okt. 18:00-20:00
Hvar? Árbæjarsafn
Hrekkjavaka verður haldin á Árbæjarsafni fimmtudaginn 31. október 2019 frá kl. 18-20. Safnið verður sveipað dulúðlegum blæ, húsin verða hryllileg og í rökkrinu má sjá bregða fyrir svipum fortíðar.
Markmiðið er að gestir fái að kynnast fornum siðum hátíðarinnar og hver veit nema andar fortíðarinnar verði á vegi þeirra. Þeir allra hugrökkustu geta bankað upp á draugaleg hús sem hafa logandi lukt og krafið framliðna íbúa þeirra um grikk eða gott.
Boðið verður upp á smiðju þar sem krakkar geta útbúið flotta hrekkjavökupoka til að safna sælgæti og hægt verður að spjalla við spákonur sem skyggnast inn í framtíðina. Á safninu verður líka framliðinn þjóðfræðingur sem segir hræðilegar draugasögur - svo haldið ykkur fast! Kvöldinu lýkur svo eldlistakonan Húlladúllan með ógnvekjandi og eldfimu atriði sem fær hárin til að rísa.
Aðgangur er ókeypis fyrir börn og alla grímuklædda gesti. Börn 12 ára og yngri verða koma í fylgd með fullorðnum. Viðkvæmar sálir eru einnig hvattar til að hafa með sér fylgdarmann til halds og trausts.
Dagskráin hefst kl. 18:00 og stendur til kl. 20:00.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Hrekkjavaka hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga víða um Evrópu og hafa mörg söfn tekið upp þann sið að halda upp á hrekkjavöku með frábærum árangri. Samkvæmt gamalli norrænni hefð og keltneskri þjóðtrú markar hrekkjavaka upphaf nýs árs en þá er sumarið kvatt með von um góða endurkomu og þakkir veittar fyrir góða uppskeru.
Allraheilagramessa 1. nóvember var ein af helgustu hátíðum kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Samkvæmt Grágás var bændum þá skylt að gefa fátækum mat sem var skipt á milli þeirra á hreppssamkomu. Á ensku heitir kvöldið fyrir Allraheilagramessu All Hallows’ Eve (allra heilagra kvöld) sem hefur síðar breyst í Halloween og er alþekkt gleðskapar- og vættarhátíð á Bretlandseyjum og víðar þar sem menningaráhrifa þaðan gætir.
Samhain er keltnesk hátíð hinna dauðu sem haldin var hátíðleg frá 31. október – 1. nóvember og markaði hún endann á uppskerutímabilinu og upphaf vetrar og hins myrka hluta ársins. Þá kveikti fólk bál og klæddi sig í búninga til að vernda sig og dyljast heiðnum guðum og öndum. Fólk gekk á milli húsa í búningum og kvað vísur í skiptum fyrir mat og hefð var fyrir því að kveikja á kertum og koma þeim fyrir í útskornum næpum eða kartöflum. Nú er þessi hátíð þekkt sem Halloween eða hrekkjavaka upp á íslensku.