back

Jónsmessunæturganga 2022

21.06.2022 X

Á Jónsmessu fimmtudaginn 23. júní kl. 22:30 mun Borgarsögusafn bjóða upp á fróðlega náttúrugöngu í Elliðarárdal. Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur leiðir gönguna.

Gönguhópur á Jónsmessu í Elliðarárdal
Gönguhópur á Jónsmessu í Elliðarárdal

Á Jónsmessu fimmtudaginn 23. júní kl. 22:30 mun Borgarsögusafn bjóða upp á fróðlega náttúrugöngu í Elliðarárdal. Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur leiðir gönguna.

Gengið verður frá Árbæjarsafni og niður í Elliðaárdal, staldrað við á völdum stöðum, sagðar sögur, fjallað um íslenska þjóðtrú og hinar öflugu jurtir sem vaxa á svæðinu.

Jónsmessunótt tengjast sagnir um yfirnáttúrulegar verur enda talið að þessa nótt væru skilin þynnri milli heima en flestar aðrar nætur. Þekkt er trúin á lækningamátt daggarinnar velti menn sér naktir upp úr henni og vonin um að finna steina með töframætti þessa nótt. Þessa nótt er talið að selir fari úr hömum sínum og dansi sem naktar manneskjur hér og þar í fjörum landsins. Því til sönnunar má nefna að fólk lagði ekki út net á Jónsmessu því það var hrætt um að veiða selmey.

Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu, þar sem hún er fyrst og fremst miðsumarshátíð. Þar tíðkuðust brennur og dansleikir sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum. Náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafa komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess á Íslandi og annars staðar. Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi.

Hist er við inngang Árbæjarsafns en gangan tekur um eina og hálfa klukkustund.

Þátttaka er ókeypis og er öllum velkomin.