back

Ljósmyndarýni á Ljósmyndahátíð Íslands 2018

24.11.2017 X

Ljósmyndarýni verður haldin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur dagana 19.- 20. janúar 2018.

Mynd frá ljósmyndarýni Ljósmyndahátíð Íslands 2016
Frá ljósmyndarýni á Ljósmyndahátíð Íslands 2016

Ljósmyndahátíð Íslands 2018 kynnir:

LJÓSMYNDARÝNI 2018
19 - 20. janúar 2018

Staður: Aðalstræti 10 (Borgarsögusafn)
Föstudagur 19. janúar kl. 9:00 - 15:00
Laugardagur 20. janúar kl. 9:00 - 12:00

Ljósmyndarýni verður haldin í fjórða skipti á Ljósmyndahátíð Íslands dagana 19. og 20. janúar 2018 og sem fyrr er það  Ljósmyndasafn Reykjavíkur (Borgarsögusafn) sem hefur veg og vanda af skipulagningu hennar. 

Markmiðið með ljósmyndarýninni er að útvíkka tengslanet milli ljósmyndara í öllum greinum og gefa þeim tækifæri til að fá ráðleggingar og endurgjöf um verk sín.

Ljósmyndarýni er 20 mínútna fundur þar sem ljósmyndari mætir með myndir sínar, á pappír eða á stafrænu formi og sýnir viðkomandi rýnanda. Auk íslenskra sérfræðinga á sviði ljósmyndunar munu virtir erlendir rýnendur, sem ýmist eru sýningarstjórar á söfnum og galleríum eða ritstjórar ljósmyndatímarita,  veita íslenskum ljósmyndurum umsögn um verk þeirra. Þátttakan getur fært ljósmyndurum ýmis tækifæri eins og boð á erlendar hátíðir og/eða sýningaþátttöku. 

STYRKUR

Eins og fyrr mun dómnefnd, sem samanstendur af öllum rýnendunum velja styrkþega úr hópi þátttakenda og því eiga allir möguleika á að hljóta hann.

Styrkurinn eru veittur úr minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar ljósmyndara (1862-1937) í ljósmyndarýnina. Minningarsjóðurinn er eini sjóður sinnar tegundar hér á landi og er tilgangur hans er að styrkja ljósmyndun á Íslandi sem listgrein.

FYRRI STYRKÞEGAR Á LJÓSMYNDARÝNI

2016 – Agnieszka Sosnowska
2014 – Bára Kristinsdóttir og Valdimar Thorlacius

SKRÁNING

Umsóknir berast sjálfkrafa í Minningarsjóð Magnúsar Ólafssonar um leið og viðkomandi skráir sig og greiðir staðfestingargjald í ljósmyndarýnina á umsjónarmann hennar: johanna.gudrun.arnadottir@reykjavik.is, þar sem eftirtalin atriði þurfa að koma fram:
 

  • Nafn, heimilisfang og kennitala viðkomandi.
  • Val á 4 til 5 rýnendum sem þú vilt hitta og raðaðu þeim í mikilvægiröð frá 1-5.

Nr. 1 er sá sem þú vilt helst hitta og sá 5. er til vara.

Hér má sjá upplýsingar um rýnendur 2018 
Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar 

 

    Ganga þarf frá greiðslu til að staðfesta skráningu.

    Þátttökugjaldið er 18.500 kr.

    Takmarkað pláss er á rýnina og ekki víst að allir geti hitt þá sem þeir óska helst.

    Ath! Skráningu lýkur 10. janúar 2018