back
Menningarnótt á Borgarsögusafni 2022
Það verður menningarlegt að vanda á Borgarsögusafni á Menningarnótt, laugardaginn 20. ágúst, þar sem fólk á öllum aldri getur fengið að kynnast og njóta þeirrar sögu sem samfélag okkar byggir á. Fjölbreyttir viðburðir fara fram í Aðalstræti, á Sjóminjasafninu í Reykjavík og á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>

Landnámssýningin og Reykjavík … sagan heldur áfram í Aðalstræti 10-16 rekja sögu byggðar í Reykjavík allt frá landnáminu til samtímans. Áhersla er lögð á að draga fram þætti úr sögu Reykjavíkur, varpa ljósi á daglegt líf íbúanna og tíðarandann í aldanna rás með fjölbreyttri miðlun og upplifun. Í tilefni Menningarnætur verður boðið upp á epli og appelsínur á túkall fyrir utan verslun þeirra Silla og Valda í Aðalstrætinu sem lifir enn. Húsasmiðja fyrir húsdýrin verður einnig starfrækt í Aðalstrætinu þar sem ímyndunaraflinu er boðið til leiks auk þess sem víkingadraumar geta ræst í búningahorni Landnámssýningarinnar. Víkingar í Víkingahópnum Rimmugýgur munda svo skildi sína og sverð í Aðalstrætinu fram eftir degi og sýna okkur bardagalistir forfeðranna.
Á Ljósmyndasafni Reykjavíkur býður Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur í spjall um sýninguna Landvörður eftir Jessicu Auer sem nú stendur yfir á safninu. Þar gefst gott tækifæri til að hugleiða þá samábyrgð sem felst í því að búa í einstakri náttúru en Jessica Auer hefur fengist markvisst við myndræna skrásetningu á áhrifum fjöldaferðamennsku á íslenskt landslag og samfélag. Sýning Gissurar Guðjónssonar Svæði opnar í Skotinu þennan dag þar sem gestir geta haldið áfram að rýna í menninguna og ummerki um tilvist mannsins sem Gissur nýtir sem efnivið í sýningunni. Hipp hopp danstónlistarsveitin Mæðraveldið býður svo í taktfastan dans þar sem menningarstraumar mætast að kvöldi Menningarnætur.
Á Sjóminjasafninu getur að líta sérlega fróðlega og fjölbreytta sýningu um grunnmenningu og stoðir landsmanna í sýningu safnsins Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár. Fjölbreytt miðlun sýningarinnar býður öllum eitthvað við sitt hæfi þar sem gagnvirkir leikir gleðja suma og kyrrð stjörnufræðinnar býður öðrum um magnaða veröld siglinga og skipa í aldanna rás. Í tilefni Menningarnætur er yngstu kynslóðinni boðið á ævintýrasýninguna Ljósagull þar sem Húlladúllan býður í töfraferðalag með ljósum og glitrandi stemningu. Hinir eldri geta svo haldið stemningunni á lofti langt fram á kvöld og stigið dansinn í sjómannavalsi, ræl og polka á bryggjuballi sem hefst kl. 20.
DAGSKRÁIN Í HNOTSKURN:
Landnámssýningin & Aðalstræti 10
10:00-20:00 Landnámssýningin
10:00-20:00 Reykjavík ... sagan heldur áfram
10:00-20:00 Býr í þér víkingur? Búningasmiðja Aðalstræti 16
12:00-18:00 Rimmugýgur. Víkingar í fullum skrúða í Aðalstræti
14:00-17:00 Hús fyrir húsdýrin! Smiðja í Aðalstræti 10
14:00-20:00 „Af ávöxtunum skulu þér þekkja þá“. Epli og appelsínur á túkall fyrir framan Aðalstræti 10 á meðan birgðir endast.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur
13:00-22:00 Sýningin Landvörður á Ljósmyndasafninu
14:00-15:00 Landvörður, sýningarspjall
17:00-22:00 Opnun í Skotinu: Svæði
20:00-21:00 Mæðraveldið leikur fyrir dansi
21:15-22:00 Mæðraveldið leikur fyrir dansi
Sjóminjasafnið í Reykjavík
10:00-22:00 Grunnsýningin Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár
14:00-18:00 Töfrasýning Húlladúllunnar Ljósagull
20:00-22:00 Bryggjuball
Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.
Borgarsögusafn, eitt safn á fimm frábærum stöðum.