back

Menningarnótt á Borgarsögusafni Reykjavíkur

01.08.2023 X

Það verður menningarlegt að vanda á Borgarsögusafni á Menningarnótt þar sem fólk á öllum aldri getur fengið að kynnast og njóta þeirrar sögu sem samfélag okkar byggir á. Fjölbreyttir viðburðir fara fram á Aðalstræti 10-16, á Sjóminjasafninu í Reykjavík og á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

öldur, menningarnótt
Víkingarnir í Öldur

Í Aðalstræti 10-16 er rakin saga byggðar í Reykjavík allt frá landnáminu til samtímans. Áhersla er lögð á að draga fram þætti úr sögu Reykjavíkur, varpa ljósi á daglegt líf íbúanna og tíðarandann í aldanna rás með fjölbreyttri miðlun og upplifun. Í tilefni Menningarnætur verður boðið uppá þrautaleik þar sem Baktus og draugakötturinn eru í aðalhlutverki. Víkingadraumar geta ræst í búningahorni Landnámssýningarinnar og þau sem vilja reyna við sig í vatnsberahlutverkinu geta aðstoðað við að bera vatn úr Ingólfsbrunni yfir í Fógetagarðinn.

Um kvöldið gefst gestum kostur á að kynna sér mjaðargerð að hætti víkinga með aðstoð Öldur og þá mun Rebekka Blöndal og Karl Olgeirsson töfra fram notalega stemmningu eru þau leika hugljúf djasslög af gamla skólanum og dúetta fyrir safngesti.

Á Ljósmyndasafni Reykjavíkur bjóða sérfræðingar safnsins, Sigríður Kristín Birnudóttir og Gísli Helgason, í spjall um sýninguna Litapaletta tímans – Litmyndir úr safneign 1950-1970 sem nú stendur yfir á safninu. Hinn svarthvíti heimur sem sjá má á myndum fram að þeim tíma er sjónhverfing. Lífið var vissulega í lit, klæðnaðurinn litríkur, bílarnir grænbláir, vínrauðir, jafnvel gulir og húsþökin ýmist rauð eða græn – himininn mismunandi blár! Litapaletta tímans er síbreytileg; mótuð af tísku, tækni, minningum og tíðaranda, jafnvel af miðlinum sjálfum.

Sýning Juliu Hectman Ekki einu sinni opnar í Skotinu þennan dag en í verkum Juliu eru hugtökin fjarvera og nærvera í brennidepli, líf og dauði, rauntími og fjarlægar minningar. Náttúran er allt umlykjandi í verkum hennar, sá fókus hefur gefið henni frjálsræði til að ferðast um heiminn og gaumgæfa hið kunnuglega í ókunnugu umhverfi.

Langi Seli og Skuggarnir slá svo botninn í dagskrána þar sem myndast fullkomin samhljómur litríkra ljósmynda og kröftugrar tónlistar að kvöldi Menningarnætur.

Á Sjóminjasafninu í Reykjavík getur að líta sérlega fróðlega og fjölbreytta sýningu um grunnmenningu og stoðir landsmanna í sýningu safnsins Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár. Fjölbreytt miðlun sýningarinnar býður öllum eitthvað við sitt hæfi þar sem gagnvirkir leikir gleðja suma og kyrrð stjörnufræðinnar býður öðrum um magnaða veröld siglinga og skipa í aldanna rás.

Í Vélasalnum er að finna verkið Við erum jörðin – við erum vatnið eftir Heimi Frey Hlöðversson þar sem gestir fá óvenjulega innsýn í ægifögur form náttúrunnar. Um leið er verkið dreyminn sjónrænn leikur við síbreytanleg form sem skapast stöðugt í kringum okkur en við komum alla jafna ekki auga á. Okkur er boðið í ferðalag nánast inn í efnin sjálf, sameiningu og umbreytingarferli þeirra. Danshópurinn Soft Collective sýnir dansverk innblásið af myndbandsverkum sýningarinnar þar sem þrír dansarar hreyfa sig um rýmið í stöðugu samtali og samspili við það myndefni sem varpað er á veggi þess. Verkið mun eiga sér stað um allt rýmið og í kring um áhorfendurna sem er frjálst að koma og fara eins og þau vilja. Verkið er sýnt þrisvar sinnum yfir daginn.

Þá ríkir mikil gleði á safninu nú þegar varðskipið Óðinn hefur snúið aftur að nýrri bryggju við safnið. Varðskipið Óðinn verður opið á Menningarnótt milli kl. 13-18 og munu fyrrum varðskipsliðar standa vaktina og taka á móti gestum. Þeir hafa siglt um heimsins höf og hafa frá mörgu skemmtilegu að segja um lífið um borð á árum áður. Verið ófeimin að rabba við þessa heiðursmenn.

Í Bryggjusalnum verður geysimikið fjör frá kl. 16 er harmonikkusveitin Blær stígur á stokk og spilar samba, rúmbu og tja, tja, tja. Eftir öfluga upphitun heldur stemningu áfram kl. 20 þegar Benni Sig. og félagar halda upp stuðinu á bryggjuballi safnsins. Reimaðu á þig danskóna og taktu þátt í fjörugu bryggjuballi þar sem stignir verða sjómannavalsar, ræll og polki! Kannski líka mars, tírúlluvals eða vínarkruss.

Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin!

 

DAGSKRÁIN Í HNOTSKURN:

Aðalstræti 10 – 16

10:00-22:00    Landnámssýningin – Lífið á landnámsöld

10:00-22:00    Reykjavík ... sagan heldur áfram

10:00-22:00    Þrautaleikur – Baktus og draugakötturinn

10:00-18:00    Býr í þér víkingur? Búningasmiðja

14:00-15:00    Bregðu þér í hlutverk vatnsbera í Aðalstræti

19:00-21:00    Mjaðargerð að hætti víkinga!          

20:00-20:40    Djass með Rebekku Blöndal og Karl Olgeirssyni

 

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

13:00-22:00    Litapaletta tímans – Litmyndir úr safneign 1950-1970

14:00-15:00    Sýningarspjall – Sigríður Kristín Birnudóttir og Gísli Helgason

17:00-19:00    Opnun í Skotinu – Julia Hectman – Ekki einu sinni

20:00-20:40    Langi Seli og Skuggarnir spila fyrir dansi

 

Sjóminjasafnið í Reykjavík

10:00-22:00                      Grunnsýningin Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár

10:00-22:00                      Við erum jörðin – Við erum vatnið

13:00 – 15:30                   Óðinn – Velkomin um borð!

kl. 14:00/14:45/15:30       Dansverk – Soft Collective // Við erum jörðin - við erum vatnið   

16:00-18:00                      Samba, rúmba og tja, tja, tja! – Harmonikkusveitin Blær

20:00-21:30                      Bryggjuball með Benna Sig. og félögum. 

 

Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.

Borgarsögusafn, eitt safn á fimm frábærum stöðum.