back

Rokk og ról á Árbæjarsafni

29.06.2022 X

Boðið er í ferðalag aftur til sjötta og sjöunda áratugarins. Elvis Iceland mætir og félagar úr danshópnum Lindy Ravers taka sporið. Gestir eru hvattir til að klæða sig upp í stíl við þema dagsins.

Árbæjarsafn_rokk og ról

Rokk og ról er yfirskrift sunnudagsins 3. júlí á Árbæjarsafni en þá er gestum boðið að upplifa ferðalag aftur til sjötta og sjöunda áratugarins. Hinn eini sanni lofsöngvari Elvis Iceland mætir og syngur nokkur vel valin Presleylög og félagar úr danshópnum Lindy Ravers taka sporið. Gestir eru hvattir til að klæða sig upp í stíl við þema dagsins. Dagskráin hefst klukkan 13 og stendur til klukkan 16 síðdegis. 

Félagar í Fornbílaklúbbi Íslands kíkja í heimsókn með drossíurnar sínar og spjalla við gesti. Í Hábæ vinnur húsfreyjan Katrín Rósa fyrir sér með því að greiða nágrannakonunum. Hún veit allt um galdurinn á bak við flotta pin-up hárgreiðslu. Í Lækjargötu stendur Heiðdís Einarsdóttir  förðunarfræðingur sem farðar dömurnar áður en þær skella sér á ball í sínu fínasta pússi!  

Dillons kaffihús safnsins býður upp á nýlagað kaffi og ilmandi bakkelsi. 

Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.  

Safnið er opið í allt sumar á milli kl. 10-17.