back

Safnanótt 2020 á Borgarsögusafni

04.02.2020 X

Föstudaginn 7. febrúar allir staðir opnir kl. 18-23. Nema Óðinn verður opinn frá kl. 19-22.

ÁRBÆJARSAFN

Kl. 18-20   BINGÓ

Þreyjum Þorrann og spilum Bingó! Lauflétt bingó með ýmsum vinningum verður í boði fyrir alla fjölskylduna á Árbæjarsafni á Safnanótt milli kl. 18-20.

Kl. 19-22   Draugagöngur

Farnar verða sex hrollvekjandi draugagöngur um myrkvað safnið sem fá hárin til að rísa! Fyrstu tvær göngur kvöldsins verða barnvænar og bannaðar fullorðnum en seinni göngurnar verða hræðilegri. ATHUGIÐ að vegna vinsælda er skráningar þörf og ekki komast fleiri en 15-20 manns með í hverja göngu. Skráningu skal senda á netfangið leidsogumenn@reykjavik.is og ganga skráðir þátttakendur fyrir.

Barnvænar göngur verða kl. 19:00 og 19:30.

Fullorðinsgöngur verða kl. 20:00, 20:30, 21:30 og 22:00.

Kl. 19-22   Spákonur

Í húsi sem heitir Líkn verða staðsettar tvær vanar spákonur sem sjá lengra en nef þeirra nær. Þær bjóða gestum að setjast hjá sér og fá spádóm.

Kl. 21:15 & 22:15    Söngur og sögur með Pétri Húna og Jóni Svavari

Söngvararnir og kvæðamennirnar Pétur Húni Björnsson og Jón Svavar Jósefsson flytja þjóðleg tónlistaratriði og spinna saman við þau sögur af tónlist. Þeir munu að stikla á öllu milli himins og jarðar og taka meðal annars fyrir uppruna kvæðalagsins, gamlar íslenskar auglýsingar, tvísöng og nútíma kveðskap. Gott ef þeir leggja ekki líka endurmat á íslenska tónlistarmenningu!

Tónleikarnir fara fram tvisvar, annars vegar kl. 21:15 og hins vegar kl. 22:15.

Aðgangur í Árbæjarsafn á Safnanótt er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

Kaffihús Árbæjarsafns í Dillonshúsi verður opið á Safnanótt frá kl. 19-22. Þar verður hægt að kaupa gómsætar veitingar sem henta stórum sem smáum.

LANDNÁMSSÝNINGIN

Kl. 19-21   Mjaðargerð                  

Á Safnanótt munu gestir Landnámssýningarinnar geta fylgst með því hvernig bruggarar frá mjaðargerðinni Öldur brugga mjöð og jafnframt fengið að smakka drykkinn. Bruggararnir verða til tilbúnir til skrafs og ráðagerða og eru allir áhugasamir hvattir til að spyrja þá spjörunum úr.

Öldur er fyrsta mjaðargerð Íslands, stofnuð af Sigurjóni Friðriki Garðarssyni og Helga Þóri Sveinssyni árið 2017. Helgi hefur starfað við bruggun og eimingu hjá þremur íslenskum fyrirtækjum og báðir hafa þeir verið virkir í heimabruggi á Íslandi í mörg ár. Á þeim árum hafa þeir meðal annars unnið til verðlauna á Bjórkeppni Fágunar, félagi áhugafólks um gerjun, og kynnt sér allt sem hægt er um mjaðargerð (sem skal ekki rugla við bjórgerð). Það lá því vel við fyrir þá að sameina krafta sína í þetta verkefni.

Kl. 19-22      Glerperlugerð að hætti víkinga

Á Landnámssýningunni mun glerblásarinn Fanndís Huld Valdimarsdóttir sýna gestum hvernig gler er brætt og mótað í perlur yfir opnum eldi. Hún notar bæði nýjar aðferðir og gamlar að hætti víkinga og er tilbúin að spjalla við fólk og segja frá þessu gamla handbragði.

Á víkingatímanum var mikið stöðutákn að eiga fagrar glerperlur og þær voru afar verðmætur gjaldmiðill. Slíkar perlur finnast oft í uppgreftri, til dæmis í heiðnum gröfum.

Kl. 21 & 22   Djassgeggjun með Píanótríó

Djassbandið Píanótríó treður upp á Landnámssýningunni á Safnanótt og spilar heita suðræna tóna í bland við geggjað djass. Bandið kemur tvisvar fram um kvöldið, annars vegar kl. 21 og svo aftur kl. 22.

Bandið skipa þeir Tómas Jónsson á hljómborð en hann hefur m.a. spilað undir hjá Ásgeiri Trausta og gefið út eigið efni á plötu. Skúli Gíslason á trommur en hann trommar með Bjössa Thoroddsen og er einnig í þekktum böndum eins og Sign og Noise. Ævar Örn Sigurðsson spilar á kontrabassa en hann lauk námi í FÍH á kontrabassa árið 2016 og spilar með þungarokkshljómsveitinni Zhrine sem eru að gera góða hluti erlendis.

 Píanótríó kemur úr ólíkum áttum en finnur sameiginlegan grundvöll í jass og latin tónlist.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

LJÓSMYNDASAFN REYKJAVÍKUR

Kl. 19 og 19:30   Skyggnst á bak við tjöldin

Ljósmyndasafn Reykjavíkur varðveitir ríflega 6 milljón ljósmynda og eru 37 þúsund þeirra aðgengilegar á myndavef safnsins. Í tilefni af Safnanótt munu sérfræðingar safnsins bjóða upp á örleiðsagnir þar sem gestum er boðið að skyggnast á bak við tjöldin og fræðast um innri starfsemi safnsins. Þátttakendur fá meðal annars að sjá margar ólíkar gerðir ljósmynda og fræðast um hvernig þær eru varðveittar. Hver leiðsögn tekur um 20 mínútur og fer fram á íslensku. ATHUGIÐ! Fjöldi þátttakenda í hverri leiðsögn er að hámarki 10.

Kl. 20  Höfundaspjall með Valdimar Thorlacius um sýninguna „···“

Valdimar býður öllum áhugasömum gestum Safnanætur að fylgja sér um sýninguna „···“ og ræðir við gesti um myndirnar og sögurnar á bak við þær.

Sýningin er sjónræn túlkun á upplifun Valdimars af smábæjum, fólki, veðri og víðáttu á Íslandi og heimild um lífið í þorpinu. Við vinnslu verkefnisins fór hann á milli þeirra staða sem uppfylltu ákveðin skilyrði út frá skilgreiningu Hagstofunnar um stærð og gerð þéttbýliskjarna með allt að 500 íbúum.

Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Kl. 21-23   DANS & KÚLTÚR!

Friðrik Agni og Anna Claessen frá DANS & KÚLTÚR halda uppi rífandi stemningu með dynjandi músík og dansi innan um ljósmyndir eftir Valdimar Thorlacius á Ljósmyndasafni Reykjavíkur á Safnanótt. Jafnvel þeir sem þykjast ekkert kunna munu ekki geta staðist taktinn enda eru þau Friðrik og Anna þrautreyndir og skemmtilegir kennarar - því auðvitað geta allir dansað!

Á sama tíma býðst gestum að smakka íslenska ginið Himbrima en það var valið heimsins besta gin í sínum flokki á World Gin Awards 2019 í London.

SJÓMINJASAFNIÐ Í REYKJAVÍK

Kl. 18-18:45       Orri óstöðvandi - sögustund og leikir

Bjarni Fritzson rithöfundur verður með sögustund fyrir börnin á Safnanótt upp úr bókum sínum um Orra óstöðvandi og Möggu Messi. Í þeim segir Bjarni skemmtilegar sögur um strákinn Orra sem kallar sig Orra óstöðvandi þegar hann vantar hugrekki og sjálfstraust. Bjarni mun einnig spjalla við krakkana um nýjustu bókina sína og gefa þeim færi á að tjá hugmyndir sínar um framvindu mála.

Að sögustund lokinni mun Bjarni að fara í leiki með krökkunum.

Við mælum svo með að allir gefi sér tíma til að skoða nýju grunnsýningu safnsins en þar er að finna margt skemmtilegt fyrir krakka að spreyta sig á eins og rannsóknarborð, tölvuleikurinn „hver étur hvern“ og lyftaraleikur.

kl. 19-22   Varðskipið Óðinn. Velkomin um borð!

Varðskipið Óðinn liggur við festar við Sjóminjasafnið en nýlega fagnaði skipið 60 ára afmæli. Á Safnanótt verður öllum boðinn ókeypis aðgangur um borð í skipið milli kl. 19-22. Þar verður hægt að spjalla við fyrrum varðskipsliða sem geta sagt margar sögurnar af sjómennsku og ævintýrum um borð og eru gestir hvattir til að spyrja þá spjörunum úr. Gætið þess að villast ekki í ranghölum skipsins!

Kl. 19:30   Leiðsögn um sýninguna Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár

Sigrún Kristjánsdóttir sýningastjóri nýju grunnsýningar leiðir gesti Safnanætur um sýninguna og segir frá tilurð hennar. Sýningin Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár á Sjóminjasafninu í Reykjavík fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000.

Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, og sett fram á lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum. Sýningin er byggð kringum aðalpersónu þessarar sögu: Fiskinn sjálfan. Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn. Leiðsögnin fer fram á íslensku.

Kl. 20         Safna quiz með Ævari Erni Jósepssyni

Sjóminjasafnið býður upp á Safna Quiz  á Safnanótt í samstarfi við veitingastaðinn Messann, sem staðsettur er á Sjóminjasafninu. Spyrill verður Ævar Örn Jósepsson dagskrárgerðarmaður hjá RÚV og reyndur spyrill ýmissa spurningakeppna. Í hverju liði geta að hámarki verið fjórir. Sigurliðið fær Menningarkort, en það eru árskort á söfn borgarinnar, ásamt gjafakorti upp á 10 væna gyllta drykki frá Messanum.

Ævar er rithöfundur og fréttamaður á Ríkisútvarpinu, þar sem hann var líka aðalspurningahöfundur hins sívinsæla spurningaþáttar Útsvars um þriggja ára skeið. Ævar hafði umsjón með langlífasta og langmerkilegasta pöbbkvissi landsins, DREKKTU BETUR, um árabil og þar má enn finna hann flesta föstudaga. Leitun er að spyrli sem jafn hokinn er af reynslu á báðum sviðum: Að spyrja pöbbgesti spjörunum úr og reyna að svara öðrum spyrlum með bjórglas á kantinum.

Kl. 21:30   Uppistand með FYNDNUSTU MÍNUM

Tvær úr FYNDNUSTU MÍNAR verða með sprenghlægilegt uppistand kl. 21:30 á Safnanótt. Tvíeykið samanstendur af þeim Rebeccu Scott Lord og Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur. Uppistandshópurinn Fyndnustu mínar fjalla um kvenleikann og allt sem honum fylgir á gagnsæjan og hreinskilinn máta. En hópinn skipa auk þeirra Rebeccu og Heklu þær Lóa Björk og Salka Gullbrá.

Rebecca Scott Lord er bandarísk sviðslistakona sem starfar fyrir Þjóðleikhúsið. Hún segir til dæmis frá ýmsu skondnu sem fylgir því að vera aðflutt á Íslandi. Hekla Elísabet er ein handritshöfunda Jarðarförin mín, ljúfsárra gamanþátta með Ladda í aðalhlutverki. Hekla vinnur einnig fyrir UN Women og er menntaður sviðshöfundur.