back

SÖFN BORGARINNAR OPIN þrátt fyrir samkomubann vegna kórónuveirunnar

13.03.2020 X

Söfn Reykjavíkurborgar, Borgarsögusafn, Borgarbókasafn og Listasafn Reykjavíkur halda óbreyttum opnunartíma þrátt fyrir samkomubann en boðuðum viðburðum verður aflýst eða frestað frá og með mánudeginum 16. mars, á meðan samkomubannið er í gildi.

borgarsogusafn_coronavirus-4914026_1920.jpg
Image by Tumisu from Pixabay

Á söfnum hafa gestir tækifæri til að hafa hæfilega fjarlægð sín á milli. Eina undantekningin er varðskipið Óðinn sem tilheyrir Borgarsögusafni, en því hefur verið lokað vegna þrengsla.

Engin hátíð á vegum borgarinnar er á dagskrá á næstu fjórum vikum en staðan verður metin varðandi Barnamenningarhátíð og aðrar hátíðir dragist samkomubannið á langinn.

Áfram verður lögð áhersla á aukin þrif í söfnum borgarinnar umfram venjubundna ræstingu. Snertifletir eru sérstaklega hreinsaðir að lágmarki tvisvar á dag, svo sem handrið, posar, snertiskjáir og hurðarhúnar, auk þess sem leikföng og annað sem börn hafa handfjatlað er hreinsað sérstaklega. Þrif hafa verið aukin um helgar og áhersla lögð á að tryggja gott aðgengi að handspritti, fyrir gesti og starfsmenn.

Hið vinsæla verk Chromo Sapiens í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi er sömuleiðis þrifið vel og vandlega með sótthreinsiefni daglega og takmörkuðum fjölda hleypt inn í verkið hverju sinni. Hluti af varúðarráðstöfunum Borgarsögusafns er að loka leikfangasýningunni á Árbæjarsafni og eins öllum fjölskylduhornum.

Áhersla er sem fyrr lögð á að taka vel á móti öllum gestum.