back

Söguganga í Viðey | Munkar, Skúli og þorpið sem hvarf

29.06.2022 X

Söguganga með Stefáni Pálssyni sagnfræðingi þriðjudaginn 5. júlí kl. 19:15 í Viðey.

Viðey

Saga Viðeyjar er heillandi og jafnlöng byggð í landinu. Stefán Pálsson sagnfræðingur gengur með gesti um gömlu húsin í miðeynni og alla leið yfir á austurendann þar sem einu sinni var stórskipahöfn landsins. Rætt verður um dramatíska atburði siðaskiptatímans, sérkennileg kraftaverk þar sem bjór kemur við sögu, magnaða matarveislu, sjóskaða og þjóðtrú og ömurlegan vetur stórskálds í eyjunni – svo eitthvað sé nefnt. 

Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en greiða þarf í ferjuna. Siglt verður stundvíslega frá Skarfabakka kl. 19:15. Gjald í ferjuna fram og til baka eru 1.950 kr. fyrir fullorðna og 975 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins (Citycard.is) sigla frítt.

///

Aðgengi: Til að komast í ferjuna til Viðeyjar er gengið um landgang sem er misbrattur eftir sjávarföllum og fyrir vikið er aðgengi fyrir hreyfihamlaða með miklum takmörkunum. Leiðsöguhundar eru velkomnir í Viðey.

Strætisvagn, leið 16, stoppar á virkum dögum við Klettagarð/Skarfagarð rétt við Viðeyjarferjuna. Um helgar er hægt að taka leið 12 eða 14 og ganga í um 15-20 mín að Skarfabakka.