back

Sumarnámskeið fyrir börn og styrkir úr safnasjóði

16.04.2021 X

Borgarsögusafn heldur tvö námskeið fyrir börn í sumar, annað verður í Viðey í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og hitt á Árbæjarsafni í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Borgarsögusafni hefur verið úthlutað alls sex styrkjum í aðalúthlutun safnasjóðs 2021 að heildarupphæð 7.050.000 kr.

Viðey_krakkar við Viðeyjarstofu_GHS.jpg

VIÐEY FRIÐEY  
Sumarnámskeið fyrir 7-9 ára börn

Borgarsögusafn og Listasafn Reykjavíkur standa fyrir spennandi vikulöngum námskeiðum í sumar fyrir 7-9 ára börn í friðsælu náttúruperlunni Viðey.

Börnin nema land, upplifa sögu og náttúru eyjarinnar í gegnum skapandi og listrænt starf innan- og utandyra. Þau fá að kynnast gamla skólahúsinu í Viðey sem var hluti af þorpinu sem hvarf.

Í nýuppgerðu skólahúsinu er sérlega góð aðstaða til tilrauna og rannsókna á gersemum náttúru eyjunnar sem verða notaðar sem efniviður í myndlistarsköpun og leiki. Unnið verður sérstaklega með friðarupplifun í gegnum listir, leiki, markvissa útiveru og hreyfingu.

Markmið námskeiðann er að hver og einn þátttakandi fái að njóta sín á eigin forsendum undir handleiðslu fagfólks. Leitast verður við að skapa vingjarnlegt umhverfi fyrir börninn án snjalltækja, þar sem þau munu skapa nýjar minningar í hópi jafningja.

Um kennslu sjá Ása Helga Ragnarsdóttir, leiklistarkennari, Guðrún Gísladóttir, myndmennta-og smíðakennari og Sara Riel, myndlistarmaður.

Viðey friðey námskeiðin eru samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur og eru styrkt af Barnamenningarsjóði.

Lengd námskeiðs: 4-5 dagar
Tími: 09:00-16:00 mán-fös
Staður: Skarfabakki (Sundahöfn) og Viðey
Aldur: 7-9 ára (börn fædd 2012-2014)
Námskeiðsgjald: 28.000 -34.000 kr. 15% afsl. fyrir systkini. 10% afsl. með Menningarkortinu.
Takmarkaður fjöldi: Að lágmarki 6 og að hámarki 12 hverja viku

Dagsetningar:
14.-18. júní (4 dagar v. 17. júní)
21.-25. júní
28. júní-2. júlí
3.-6. ágúst (4 dagar v/ Versl.m.h.)
9.-13. ágúst
16.-20. ágúst

Skráning fer fram hér.

ÞRÁÐUR
Sumarnámskeið á Árbæjarsafni fyrir 12-15 ára börn

Þráður er sumarnámskeið í tengslum við sýninguna Karólína vefari á Árbæjarsafni. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur og Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 12-15 ára og verður haldið í Kornhúsinu á Árbæjarsafni í júní.
 
Nemendur kynnast sögu Karólínu Guðmundsdóttur vefara og skoða sýninguna með leiðsögn. Nemendur fá innsýn í eiginleika og möguleika íslensku ullarinnar, læra um það hvernig þráður er unninn úr ullarreyfinu, um eiginleika hans og hversu mikilvæg ullin hefur verið þjóðinni og er raunar enn. Þessi fræðsla verður í formi frásagnar og sýnikennslu.

Þá fá nemendur leiðsögn í að vefa lyklakippu/ bókamerki í vefnaðarramma sem þeir fá til eignar og geta svo unnið fleiri hugmyndir ef tími gefst til á námskeiðinu. Vonandi eiga vefnaðaráhöldin svo eftir að koma að góðum notum heima eftir námskeiðið.

Mikilvægt er að nemendur komi með hollt og gott nesti til að borða í hádeginu og gott er að hafa með sér vatnsbrúsa. Athugið að ekki er leyfilegt að vera með sælgæti, gos eða orkudrykki. 

Kennari: Sigríður Ólafsdóttir, listgreinakennari og vöruhönnuður
Lengd námskeiðs: 2 skipti = 8 klst
Staður: Kornhúsið, Árbæjarsafni
Aldur: 12-15 ára
Námskeiðsgjald: 8.000 kr.
Dagsetningar: 14.-15. júní og 21.-22. júní

Skráning: Hér má skrá börn á námskeiðið.

Aðalstræti10_stelpur_vid_vefstol_GHS.jpg

Borgarsögusafn hlýtur sex styrki úr safnasjóði

Það er með mikilli ánægju og þakklæti sem við tilkynnum að Borgarsögusafni hefur verið úthlutað alls sex styrkjum í aðalúthlutun safnasjóðs 2021 að heildarupphæð 7.050.000 kr.

Styrkirnir sem um ræðir eru fyrir eftirfarandi verkefni:

  • Áhrif loftgæða í umhverfi Árbæjarsafns á endingu safngripa-framhald. - 650.000 kr.
  • Dráttarbáturinn Magni. Endurbætur. - 700.000 kr.
  • Minningin lifir - Stafrænn gagnagrunnur yfir íslenska sjómenn sem fórust við störf á árunum 1900-2020. - 800.000 kr.
  • Sigurhans Vignir - Hið þögla en göfuga mál. 40 ára afmælissýning Ljósmyndasafns Reykjavíkur. - 900.000 kr.
  • Margmiðlun - Aðalstræti 14.09.1906. - 1.500.000 kr.
  • Aukið öryggi safnkosts - umbætur í varðveisluhúsum Borgarsögusafns í kjölfar eftirlitsskýrslu safnaráðs. - 2.500.000 kr.
Mynd af varðskipinu Óðni með dráttarbátinn Magna sér við hlið