back

Þjóðhátíðargleði Árbæjarsafns

14.06.2022 X

Þjóðhátíðadeginum 17. júní verður fagnað með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í Árbæjarsafni. Að vanda verður þjóðbúningurinn í öndvegi og eru gestir hvattir til að mæta í eigin þjóðbúningi.

Vikivaki sýnir gamla þjóðdansa um eftirmiðdaginn. Vikivaki er hópur ungra dansara sem hefur starfað saman frá árinu 2017 og kynnt íslenskar dans- og tónlistarhefðir með það að markmiði að efla þjóðdansaáhuga Íslendinga.

Fjallkonunni verður skautað í Lækjargötu kl. 14 og má enginn missa af því. Þá verða margir flottir fornbílar á víð og dreif um safnsvæðið sem og handverksfólk að störfum í safnhúsunum. Litríku og góðu sleikjóarnir verða á sínum staði í Krambúðinni og heitt á könnunni í Dillonshúsi og heimabakað góðgæti.

Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja, og þá sem mæta í eigin þjóðbúningi, hverrar þjóðar sem hann er.

Starfsfólk Árbæjarsafns í búningum bregður á leik
Þjóðhátíðargleði á Árbæjarsafni