back

Þjóðsögur fyrir börn

13.07.2022 X

Börnum verða sagðar þjóðsögur í Viðey laugardaginn 23. júlí kl. 12:15 í skemmtilegri náttúrugöngu þar sem sögukonan verður Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur.

Viðey

Spáð verður í jurtirnar, nöfn þeirra, athugað verður hvort það fylgi þeim einhver þjóðtrú, nytjar þeirra skoðaðar og fjallað um lækningamátt þeirra ásamt því sem fylgst verður með fuglalífi á eynni. Horft verður á hafið og sagðar þjóðsögur af marbendli, margýjum, hafmönnum, hafströmbum og öðrum verum sem búa í hafinu. Spáð verður í uppruna huldufólks og sögð saga sem tengist Magnúsi Stephensen konferenzráð og huldukonu einni. Fjölbreytt saga eyjunnar mun fléttast inn í gönguferðina. 

Gangan er jafnt fyrir börn og fullorðna og ef fólk vill getur verið gaman að koma með jurta- og fuglabækur. Siglt verður stundvíslega frá Skarfabakka kl. 12:15.

Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en greiða þarf í ferjuna. Gjald í ferjuna fram og til baka eru 1.950 kr. fyrir fullorðna og 975 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. 

Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins (Citycard.is) sigla frítt.

Viðey er hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur - Eitt safn á fimm frábærum stöðum.