back

Varðskipið Óðinn 60 ára

28.01.2020 X

Nú eru liðin 60 ár frá því að varðskipið Óðinn kom til Íslands. Að því tilefni buðu Hollvinasamtök Óðins velunnurum skipsins til afmælisfagnaðar um borð, sunnudaginn 26. janúar 2020.

Óðinn á 60 ára afmæli varðskipsins.

Margt var um manninn og stemningin góð. Afmælisræður fluttu þau Guðmundur Hallvarðsson formaður Hollvinasamtaka Óðins, Guðni Th. Jóhannesson forseti, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Sjóminjasafnsins og Borgarsögusafns. Vakti ræða forsetans að öðrum ólöstuðum sérstaka eftirtekt og kátínu enda fáir eins vel af sér um sögu Óðins og þorskastríðanna og hann.

Óðinn er án efa eitt allra merkasta skip okkar Íslendinga og saga hans er samofin sögu þjóðarinnar á síðari hluta 20. aldar. Óðinn var smíðaður í Ála­borg í Dan­mörku árið 1959 og kom til lands­ins 27. janú­ar 1960, en hann átti þá eft­ir að reyn­ast Land­helg­is­gæsl­unni vel í kom­andi þorska­stríðum og fjöl­mörg­um björg­un­araðgerðum, ekki síst átta árum síðar þegar mannskaðaveður gerði á Ísa­fjarðar­djúpi. Frá árinu 2008 hefur Óðinn verið varðveittur sem safnskip við Vesturbugt í Reykjavík. Óðinn er í eigu Hollvinasamtaka Óðins, en starfsemin er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík. Óðinn er einn vinsælasti og glæsilegasti hluti safnsins og sannkölluð hafnarprýði.

Boðið er upp á leiðsögn um borð þrisvar á dag auk þess sem skipið er opið gestum á hátíðisdögum sem er þá sérstaklega auglýst. Í leiðsögn er gengið í um skipið, sagt frá sögu þess, lífinu um borð og því hlutverki sem að það gegndi hjá Landhelgisgæslu Íslands. Hver leiðsögn tekur tæplega klukkustund. 

Hollvinasamtök Óðins voru stofnuð 26. október 2006 í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Björgum Óðni, sögunnar vegna voru einkunnarorð þessara nýju samtaka, sem stofnuð voru að frumkvæði Sjómannadagsráðs eftir tillögu Guðmundar Hallvarðssonar, þáverandi þingmanns og formanns ráðsins. 

Þeim sem áhuga hafa á að ganga í Hollvinasamtök Óðins er bent á að senda tölvupóst á: sigrun.olafsdottir4@reykjavik.is.

Um borð í Óðni á 60 ára afmæli skipsins. Frá vinstri: Áslaug Arna Sigurbjörns­dóttir dómsmálaráðherra; Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú.
60_ara_afmaeli_odins_vefmynd_ghs.jpg