back

Vetrarfrísdagskrá Borgarsögusafns 20. - 24. október

18.10.2016 X

Borgarsögusafn_vetrarfri_2016.jpg

Borgarsögusafn - 1 safn - 5 staðir

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn verður opnað sérstaklega dagana 20.-24. október frá kl. 13-16 vegna vetrarfrís í grunnskólum Reykjavíkur. Allir fullorðnir í fylgd með börnum fá frítt inn á safnið þessa daga.

Valin hús við torgið verða opin en dagana 20., 21., og 22. október frá kl. 14-16 verður listsmiðja í boði fyrir fjölskyldur í tengslum við sýninguna Völundarhús plastsins eftir Jónborgu Sigurðardóttur. Þetta er farandsýning sem sett hefur verið upp í Lækjargötu 4, en þar er einnig að finna sýninguna Neyzlan – Reykjavík á 20. öld. Farandsýning þessi hefur það markmið að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plasts í heiminum. Í smiðjunni verður hægt að spreyta sig á því að búa til listaverk úr endurunnu plasti og gefa því nýtt líf.

Í Landakoti geta gestir skoðað sýninguna Komdu að leika! en þar mega börn leika sér með sýningargripina sem eru fjölbreytt leikföng íslenskra barna í gegnum alla 20. öldina.

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Sjóminjasafnið í Reykjavík býður öllum fullorðnum frítt inn í fylgd með börnum dagana 20.-24. október vegna vetrarfrís í grunnskólum Reykjavíkur. Safnið er opið frá kl. 10-17 alla daga og miðlar sögu og minjum tengdum sjó og sjómennsku.

Mánudaginn 24. október verður boðið upp á smiðju fyrir fjölskyldur í samstarfi við Biophilia-menntaverkefnið. Börn og fullorðnir verða hvött til að nýta sköpunargáfuna með því að tengja saman tónlist, tækni og náttúruvísindi á nýstárlegan hátt og læra með virkri þátttöku, tilraunum, leik og sköpun. 

Jarðfræðingurinn Snæbjörn Guðmundsson frá Háskóla Íslands fjallar um spennu í jarðskorpunni og hreyfingar jarðflekanna. Listamaðurinn Curver Thoroddsen skoðar hljóma og spennu í tónlist. Saman tengja þeir þetta tvennt, vinna tilraunir og skoða þessi fyrirbæri með aðstoð spjaldtölvu og Biophilia apps Bjarkar Guðmundsdóttur. 

Smiðjan er ætluð börnun á aldrinum 10-12 ára. Vinnustofan hefst kl. 13 og er ókeypis. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Skráning þarf að fara fram í gegnum netfangið safnfraedsla@reykjavik.is. Safnið er opið alla daga frá kl. 10-17.

Biophilia menntaverkefnið er þverfaglegt verkefni með aðkomu fræðimanna, vísindamanna, listamanna og kennara. Verkefnið er jafnframt samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, norrænu ráðherranefndarinnar, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur.

Landnámssýningin

Á Landnámssýninguna fá allir fullorðnir frítt inn í fylgd með börnum dagana 20.-24. október vegna vetrarfrís í grunnskólum Reykjavíkur.

Miðpunktur Landnámssýningarinnar er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu. Fjölskyldur geta skemmt sér við að skyggnast inn í skálann með hjálp tölvutækni og ímynda sér hvernig lífi heimilsfólksins var háttað.

Á sýningunni verður einnig hægt að spila myllu, refskák og hnefatafl og spreyta sig á skemmtilegu rúnapúsli. Þá verður líka hægt að teikna og leysa ýmiskonar þrautir.

Sýningin er opin alla daga frá kl. 9 -20.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Við hvetjum fjölskyldur til þess að nota vetrarfríið til að kíkja við á Ljósmyndasafni Reykjavíkur til að skoða hina einstöku sýningu PORTRETT Handhafar Hasselblad-verðlaunanna. Á sýningunni gefur að líta úrval verka eftir handhafa Hasselblad-verðlaunanna með sérstakri áherslu á portrett. Alls sjö ljósmyndarar eiga verk á sýningunni og spanna þau tímabilið 1940 til 2014. Þar er að finna ótal margar áhrifaríkar ljósmyndir og þetta er sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Sýningar safnsins eru opnar: mánudaga – fimmtudaga 12-19, föstudaga 12-18 og um helgar 13-17.

Frítt inn og allir velkomnir!