back

Vetrarfrísdagskrá Borgarsögusafns 2023

15.02.2023 X

Það verður að venju fjölbreytt dagskrá í boði á Borgarsögusafni fyrir börn og fjölskyldur þeirra í vetrarfríinu 23.-26. febrúar n.k. En þessa daga er frítt inn á safnið fyrir fullorðna í fylgd barna.

Árbæjarsafn

Á Árbæjarsafni geta börnin leikið sér með leikföng frá fyrri tímum á sýningunni Komdu að leika! Eftir það geta þau farið í myndaþraut um sýninguna Neyzlan sem sýnir breytingar á neysluháttum Reykjavíkinga á 20. öld. Þessi dagskrá er í boði í vetrarfríinu 23.-26. febrúar frá kl. 13-17.

Aðalstræti: Landnámssýningin og Reykjavík ... sagan heldur áfram

Í Aðalstræti 16 verður farið í leit að forngripum á Landnámssýningunni og síðan geta börnin skemmt sér við að klæða sig upp sem landnámsfólk. Eftir það er upplagt að skoða nýju sýninguna Reykjavík … sagan heldur áfram í elsta húsi Kvosarinnar í Aðalstræti 10. Þá geta börn og fjölskyldur þeirra gengið um Reykjavíkurkvosina með mynd í símanum, finna ákveðna punkta og fá upplýsingar og myndir. Gangan byrjar í Landnámssýningunni Aðalstræti 16 en þar fást nánari upplýsingar um leikinn. Þessi dagskrá er í boði í vetrarfríinu 23.-26. febrúar frá kl. 10-17. 

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Á Ljósmyndasafninu í Grófarhúsi verður farið í skemmtilegan leik um sýninguna Nálægð eftir Christopher Taylor. Börnin draga spil og leysa þrautina sem lögð er fyrir á spjaldinu. Þessi dagskrá er í boði 23. feb. kl. 10-18, 24. feb. kl. 11-18 og helgina 25.-26. feb. frá kl. 13-17.

Sjóminjasafnið í Reykjavík

Á Sjóminjasafninu úti á Granda verður boðið upp á fjölskylduleiðsögn um nýja sýningu safnsins sem heitir Við erum jörðin - við erum vatnið 23. og 24. febrúar kl. 11. Þá verður einnig hægt að fara í fjölskylduleik um grunnsýningu safnsins Fiskur og fólk og eru þrjú erfiðleikastig í boði allt eftir aldri og getu hvers barns. Þess má geta að á Sjóminjasafninu er skemmtilegt fjölskyldurými þar sem börn geta leikið sér frjálst og horft út á hafið. Safnið er opið alla daga frá kl. 10-17.

Viðey, laugardag 25. feb. og sunnudag 26. feb.

Fjölskyldur fara á eigin vegum út í Viðey.

Sigling út í Viðey er góð hugmynd að samveru fyrir vini og vandamenn í vetrarfríinu. Siglingin tekur nokkrar mínútur og er skemmtileg byrjun á hressilegum útivistardegi í Viðey. Á eyjunni eru ótal margir skemmtilegir staðir sem vert er að skoða. Það eru fjörur, hólar, hellar og skútar, listaverk, fuglalíf og aldargömul hús. Þið fáið kort af eyjunni í miðasölunni og þar finnið þið leiðina að öllum þessum stöðum.

Ef fara á í fjöruferð er góð hugmynd að skoða fyrst klukkan hvað er flóð og fjara. Það má gera með því að skoða flóðatöflu á netinu. Muna að klæða sig vel.

Vetraráætlun Viðeyjarferjunnar (1. september - 14. maí)
Brottför í Viðey: Lau / Sun kl. 13:15, 14:15 og 15:15
Brottför úr Viðey: Lau / Sun kl. 14:30, 15:30 og 16:30

Ferjugjald
FULLORÐNIR
1.950 kr.

BÖRN 7 - 17 ÁRA
975 kr.

BÖRN 0 - 6 ÁRA
Ókeypis í fylgd fullorðinna

ELDRI BORGARAR, 67 + OG ÖRYRKJAR
1.755 kr.

HANDHAFAR MENNINGARKORTS REYKJAVÍKUR
10% afsláttur