back

Vígsla menningarmerkingar í borgarlandinu laugardaginn 30. okt. kl. 15

29.10.2021 X

Búið er að reisa nýtt sögu-og fræðsluskilti við steinbæinn Garðhús sem stendur nærri gamla slippsvæðinu við Mýrargötu (Lagargata 2). Skiltið verður vígt laugardaginn 30. október, klukkan 15.

Miðhús á fyrri hluta síðustu aldar
Garðhús á fyrrihluta síðustu aldar

Garðhús* voru byggð árið 1884 af Bjarna Oddssyni sjómanni og Þuríði Eyjólfsdóttur eiginkonu hans. Þau eru dæmigerð fyrir hina svokölluðu steinbæi sem voru einkennandi í Reykjavík um aldamótin síðustu, en hafa týnt tölunni á 20. öld. 

Garðhús eiga sér langa og merka sögu sem mikið menningarheimili á sínum tíma. En einnig ber að nefna að barnabarn hjónanna, Þuríður Dýrfinna Þorbjarnardóttir, fæddist þar þann 30. október 1891. Hún lauk námi frá Kvennaskólanum árið 1912 og var mikil tungumálamanneskja. Sumarið 1921 kynntist hún markgreifanum Henri Charles Raoul de Grimaldi d‘Antibes et de Cagne, sem tilheyrði einni elstu furstaætt Evrópu, Grimaldi ættinni, sem er ríkjandi valdaætt í Mónakó, en hann var í þá í heimsókn á Íslandi. Felldu þau hugi saman og giftu sig í Reykjavík síðar sama ár og fluttu í kjölfarið suður til meginlands Evrópu. Þuríður Dýrfinna dó nokkrum árum síðar og er jarðsett í Brussel undir skjaldarmerki de Grimaldi ættarinnar.  

Dagskrá verður við Garðhús og hefst klukkan 15:00

Stuttar tölur: 

  • - Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur 
  • - Lilja D. Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra  
  • - Afhjúpun menningarmerkingar

Að því loknu verður stutt dagskrá inni á Sjóminjasafninu í Reykjavík við Grandagarð. Þar mun Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur fjalla um steinbæi í byggðaþróun Reykjavíkur og í kjölfarið mun Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur og fyrrum safnstjóri Sjóminjasafnsins í Reykjavík fjalla um sögu Garðhúsa, með sérstaka áherslu á áhugaverða ævi Þuríðar Dýrfinnu. 

Boðið verður upp á kaffi og með því.

Menningarmerkingar í borgarlandinu eru samstarfsverkefni Borgarsögusafns Reykjavíkur, Bókmenntaborgarinnar og Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur.

*Hefð er fyrir því að hafa Garðhús í fleirtölu og á það við um fleiri hús frá þessum tíma.

Ljósmynd af Þuríði de Grimaldi
Þuríður de Grimaldi