Punktarnir í Kvosinni

Fjölskylduleiðangur um elsta hluta Reykjavíkur.

Austurvöllur aðalmynd Punktarnir í Kvosinni

Velkomin í leiðangurinn Punktarnir í Kvosinni: Fjölskylduleiðangur um elsta hluta Reykjavíkur.

Leiðangurinn fer þannig fram að þið fylgið kortinu hér að neðan og skoðið myndir og staði sem tengjast Reykjavík á árum áður.
Hér fyrir neðan kortið getið þið svo flett á hverja staðreynd fyrir sig eftir því á hvaða punkti þið eruð.
Staðreyndirnar eru í tvennu lagi, annars vegar fyrir yngri kynslóðina og hins vegar fyrir lengra komna. Það er því tilvalið fyrir þá sem eru í fylgd með smáfólki að lesa einnig neðri staðreyndina til nánari útskýringar á punktinum.

Hér neðst á síðunni má svo finna vefslóðir inná spurningakeppnirnar fyrir 4-10 ára og fyrir lengra komna.

Góða skemmtun,
Starfsfólk Borgarsögusafns Reykjavíkur

Kvosin heildarkort
vikurgardur.jpg

Punktur 1: Víkurgarður

4 - 10 ára
Hér undir jörðinni er eldgamall kirkjugarður. Hann er líklegast frá því að víkingarnir voru uppi og er því örugglega ýmislegt merkilegt að finna undir hellunum sem þið standið á. Síðar var kirkjugarðinum breytt í skrúðgarð og matjurtagarð þar sem hægt var að rækta blóm og grænmeti. Til dæmis er talið að fyrsti rabarbarinn á Íslandi hafi verið ræktaður í þessum garði.

Fyrir lengra komna
Hér stóð Víkurkirkjugarður eitt sinn en hann var notaður í meira en 800 ár og stóð Víkurkirkja, kirkja Reykjavíkur, við hann. Undir lok 19. aldar var svæðinu breytt í skrúðgarð og matjurtargarð en Víkurgarður er talinn elsti almenningsgarður Reykjavíkur. Trén sem þið sjáið í kring voru gróðursett á þessum tíma og er talið að silfurreynirinn sé elsta gróðursetta tré Reykjavíkur. Hann var gróðursettur árið 1884 af Hans J. G. Schierbeck landlækni sem kynnti Íslendinga fyrir alls kyns nýjungum í gróðurrækt, en auk starfa sinna sem læknir var hann einnig fyrsti formaður Hins íslenska garðyrkjufélags.

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

barubud.jpg

Punktur 2: Ráðhúsið

4 - 10 ára
Ef fólk í gamla daga (fyrir um 100 árum síðan) langaði að skella sér á tónleika eða ball þá hittist það hér í Bárubúð eða Bárunni eins og hún var oft kölluð. Bárubúð var því nokkurn veginn eins og Harpa er núna.

Fyrir lengra komna
Hérna stóð Bárubúð, samkomuhús Sjómannafélagsins Bárunnar, sem reist var rétt fyrir aldamótin 1900. Um tíma var þetta aðalsamkomustaður Reykvíkinga. Hérna voru haldnir tónleikar, fundir, samkomur og böllin í Bárunni voru landsfræg.
(Bárubúð er í forgrunni myndarinnar hér fyrir ofan).

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

badhusid_large.jpg

Punktur 3: Baðhús Reykjavíkur

4 - 10 ára
Hér stóð Baðhús Reykjavíkur en í gamla daga höfðu ekki allir Reykvíkingar baðkör og sturtur voru ekki til. Þá gat fólk komið hingað til að baða sig, en það þurfti að borga aðeins fyrir það.

Fyrir lengra komna
Hér stóð Baðhús Reykjavíkur (1905 - 1966) en þegar það var stofnað höfðu ekki allir Reykvíkingar baðkör heima hjá sér og sturtur fundust hvergi á Íslandi. Í Baðhúsinu var ekki undlaug heldur var eingöngu ætlast til þess að fólk sinnti venjulegum líkamsþvotti. 
Í Morgunblaðinu frá 1916 stendur að klefar baðhússins séu ætíð í notkun og þurfi að fjölga baðkerum og steypuböðum. Það sé þó gleðiefni að Reykvíkingar sinni hreinlæti sínu mun betur og sjái kosti þess að þvo sér meira en aðeins á höndum og andliti.

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

austurvollur.jpg

Punktur 4: Austurvöllur

4 - 10 ára
Hér á Austurvelli stendur stytta af Jóni Sigurðssyni sem barðist fyrir því að Ísland fengi að ráða sér sjálft, en þegar hann var á lífi tilheyrði Ísland Danmörku. Austurvöllur hefur frá því í gamla daga verið vinsæll staður fyrir fólk að stoppa á, borða og liggja í sólbaði.
Í gamla daga, þegar bændur komu til Reykjavíkur, tjölduðu þeir stundum á Austurvelli og höfðu hestana sína á beit.

Fyrir lengra komna
Hér á Austurvelli stendur nú stytta af Jóni Sigurðssyni en áður var þar lengi stytta af myndhöggvaranum dansk-íslenska Bertel Thorvaldsen. Austurvöllur var þá mun stærri og girt allt í kringum hann. Þegar bændur komu til Reykjavíkur tjölduðu þeir stundum á Austurvelli og höfðu hestana þar á beit.

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

hotel_reykjavik.jpg

Punktur 5: Hótel Reykjavík

4 - 10 ára
Hérna stóð einu sinni risastórt hótel sem hét Hótel Reykjavík. Fyrir hundrað árum síðan (1915) kviknaði í því og það brann til kaldra kola ásamt ellefu öðrum húsum sem stóðu í kring. Þessi bruni hefur verið kallaður Bruninn mikli í Reykjavík og var eftir hann nánast bannað að smíða hús úr tré í Reykjavík.

Fyrir lengra komna
Hérna stóð glæsilegasta hótel bæjarins, Hótel Reykjavík, en það var byggt árið 1905. Tíu árum síðar, í apríl 1915, kviknaði í hótelinu og það brann til kaldra kola ásamt ellefu nærliggjandi húsum. Þessi atburður hefur verið kallaður Bruninn mikli í Reykjavík en þetta var langstærsti bruni sem átt hefur sér stað í Reykjavík og fórust tveir menn í honum. Eftir þetta var sett reglugerð sem nánast bannaði að reisa mætti ný timburhús. Þau voru aðeins leyfð ef byggja átti þau úti á víðavangi og greiða þurfti af þeim mun hærri brunaiðgjöld, en það var gert til þess að koma í veg fyrir að fólk reisti þau.

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

Steinbryggjan

Punktur 6: Steinbryggjan

4 - 10 ára
Hér er steinbryggjan og var þetta staðurinn þar sem skip stoppuðu til þess að hleypa fólki um og frá borði. Þetta var því oft fyrsti staðurinn sem fólk sá af Reykjavík í gamla daga, til dæmis Friðrik VIII konungur Danmerkur og Íslands. Þá var allt hér í kring og fyrir framan bryggjuna sjór, en Íslendingar eru búnir að vera smám saman að fylla upp í sjóinn síðustu 100 árin til þess að búa til meira og betra pláss í miðbænum. 

Fyrir lengra komna
Þetta er steinbryggjan, sem áður var fyrsti viðkomustaður þeirra sem komu til landsins, til dæmis stóð Friðrik VIII konungur Danmerkur og Íslands hér á þessum stað árið 1907. Íslendingar hafa smám saman verið að byggja upp hafnarsvæðið síðastliðin 100 ár og er því mikil landfylling meðfram ströndinni. Til dæmis var lítið sker hér spölkorn frá sem nú er ekki lengur sjáanlegt vegna þessara framkvæmda.

Leggðu af stað á næsta punkt leiðangursins áður en þú skoðar næstu staðreynd.

Aðalstræti 10

Punktur 7: Aðalstræti 10

4 - 10 ára
Þetta hús er það elsta í miðbæ Reykjavíkur, meira en 260 ára gamalt! Margt hefur verið í þessu húsi og margir búið í því. Hér hefur verið búð, geymsla, veitingahús og kaffihús svo eitthvað sé nefnt. Í Aðalstræti 10 mun opna ný sýning á næstu árum og verður hægt að labba á milli hennar og Landnámssýningarinnar.

Fyrir lengra komna
Þetta hús er það elsta í miðbæ Reykjavíkur, meira en 260 ára gamalt! Margt hefur verið í þessu húsi og margir búið í því. Biskupinn bjó t.a.m. hér einu sinni og voru margir kaupmenn með starfsemi hér. Í Aðalstræti 10 hefur verið verslun, geymsla, veitingahús, kaffihús og meira að segja spilasalur. Gert er ráð fyrir að ný sýning á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur opni í húsinu á næstu árum en húsið hefur verið í lagfæringu síðustu tvö ár. Þá verður einnig innangengt á milli Landnámssýningarinnar og Aðalstrætis 10.

Hér fyrir neðan er vefslóð inn á spurningakeppi uppúr leiðangrinum.

Spurningakeppni 4-10 ára

Spurningakeppni fyrir lengra komna

Takk fyrir að taka þátt!

Upplýsingar

Upplýsingar

Aðalstræti 10 & 16

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6370

landnam@reykjavik.is

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

Opið alla daga 10:00-17:00

Leiðsögn á sumrin alla virka daga 11:00

Páskahátíðin

Opið alla hátíðina 10:00-17:00

Jólahátíðin

Opið 24. des. 10:00-14:00

Lokað 25. des.

Opið 26. des. 10:00-17:00

Opið 31. des. 10:00 - 14:00

Opið 1. jan. 12:00 - 17:00

Aðgangseyrir

Aðgangseyrir

Fullorðnir

2.740 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

1.760 kr.

Menningarkort, árskort

7.700 kr.

Menningarkort 67+, árskort

2.220 kr.

ICOM og Físos korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista landnámssýningar

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.