Landnámssögur – arfur í orðum
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Sýningin Landnámssögur – arfur í orðum segir okkur sögu frá landnámi Íslands. Sögur sem hafa lifað með þjóðinni í aldir og varðveittar eru í handritum sem eiga rætur að rekja aftur til 12. aldar. Einstakt menningarlegt gildi íslensku handritanna er viðurkennt á alþjóðavísu og er handritasafn Árna Magnússonar á heimsminjaskrá UNESCO. Sýnd eru handrit að: Landnámabók, Íslendingabók, Kjalnesingasaga og Jónsbók auk kaupbréfs fyrir Reykjavík frá árinu 1615.
Óslitin ritmenning Íslands hefur varðveitt tungumálið og gert okkur kleift að vinna með menningararfinn og má segja að varðveisla tungumálsins sé hornsteinn íslensks menningararfs. Handritaarfurinn hefur mótað sýn okkar á söguna og gefið okkur einstakan grunn í fræðastarfi og rannsóknum á uppruna Íslandsbyggðar sem og norrænnar fortíðar okkar.
Með sýningunni gefst tækifæri til að bera saman þann fróðleik og vitnisburð sem handritin geyma um landnámið við fornleifar sem fundist hafa á svæðinu og sjá má á Landnámssýningunni í sama húsi og varpa þannig áhugaverðu ljósi á þessa merku sögu um upphaf byggðar í Reykjavík.
Nánar um handritin
Á tólftu og þrettándu öld voru skrifaðar sögur um landnám Íslands og mannlíf í landinu frá níundu öld og framyfir kristnitöku árið 1000. Sögurnar eru um landnámskonur og -karla frá Noregi og Bretlandseyjum, hvaðan þau voru ættuð, hvar þau settust að og hver væru helstu afkomendur þeirra. Stundum er greint frá ástæðum þess að fólk tók sig upp úr heimahögunum. Minningar og frásagnir koma úr öllum landshornum og lýsa örnefnum sem gefin voru við fyrsta fund manns og villtrar náttúru, segja frá siglingum til annarra landa, leiðum á milli staða innanlands og viðleitni fólks til að skipuleggja hið nýja samfélag með lögum og þinghaldi þar sem reynt er að leysa deilur um landamerki, landsnytjar, ástir, völd og mannvíg á meðan trúarbrögðin þokast frá heiðni til kristni.
Sögurnar eru ýmist felldar í sagnfræðilegt mót, líkt og í Íslendingabók Ara fróða sem var rituð á þriðja áratug 12. aldar og Landnámu sem er til í tveimur heilum gerðum frá því um 1300, Sturlubók og Hauksbók, eða í listilega samsettar frásagnir sem kallaðar eru Íslendingasögur. Sögusvið Íslendingasagna er héraðsbundið en atburðir, ættir og persónur tengjast með margvíslegum hætti og sameinast oft á Alþingi við Öxará.
Sá heilsteypti sagnaheimur sem þessar bækur draga upp af nýju samfélagi fólks í áður óbyggðu landi á engan sinn líka í heimsbókmenntunum. Líkt og með aðrar frásagnarbókmenntir ríkir óvissa um hvort þær séu heimild um raunverulegt fólk og atburði. Almennur ytri veruleiki sagnanna, tímasetningar, hugmyndir um uppruna og trúarbrögð auk minninga um gróðurfar og einstaka eldgos falla þó vel að því sem ráða má af öðrum heimildum og gefur það tilefni til að fullyrða að einhver samfella hafi verið í munnlegri geymd frá landnámi til ritunartímans þótt slík samfella þurfi ekki að auka trúverðugleika sagnanna.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>