Leiðarljós, hlutverk og markmið
Leiðarljós
Borgarsögusafn hefur það að leiðarljósi að vera í sterkum og sýnilegum tengslum við samfélagið, vera áreiðanlegt, upplýsandi og aðgengilegt, hvetja gesti sína til þátttöku og þjóna öllum af alúð.
Það skal sýna fagmennsku við söfnun, skráningu og varðveislu á menningarminjum, miðla fjölbreyttri sögu borgarinnar á forvitnilegan hátt, vekja fólk til umhugsunar, vera skapandi og skemmtilegt.
Starfsemi Borgarsögusafns skal vera kraftmikil, traust, markviss og skýr.
Hlutverk
Borgarsögusafn Reykjavíkur starfar samkvæmt lögum um starfsemi safna og menningarminjar, samþykktum og siðareglum Alþjóðaráðs safna. Safnið stuðlar að varðveislu menningarminja í Reykjavík með þeim hætti að borgarbúar og gestir þeirra hafi sem bestan aðgang að menningararfi borgarinnar.
Sýningarstaðir safnsins eru í Árbæjarsafni, Landnámssýningunni í Aðalstræti, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafninu í Reykjavík og Viðey, auk þess sem starfsemi safnsins er sýnileg með öðrum hætti, t.d. með sögugöngum, útgáfu og menningarmerkingum í borgarlandinu.
Hlutverk safnsins er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningarminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans. Safnið sinnir minjavörslu í Reykjavík og heldur skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í borginni. Safnið sinnir sýningarhaldi, fræðslustarfsemi og útgáfu í samræmi við fjárhags- og starfsáætlun ár hvert.
Markmið
- að tryggja samhengi milli allra sviða safnastarfsins: Söfnunar, rannsókna, varðveislu, sýninga og fræðslu
- að rannsaka og sýna margbreytileika sögunnar, menningar og mannlífs
- að leyfa ólíkum röddum að heyrast
- að sinna þekktum gestahópum vel auk þess að laða aðra hópa að safninu með markvissum aðgerðum
- að skapa umræðu og efla gagnrýna hugsun
- að vera vettvangur fyrir skapandi starf
- að vera gestrisin og veita faglega þjónustu
- að vera opin fyrir samstarfi við aðrar stofnanir, félög og einstaklinga