Bára Kristinsdóttir - Verkstæðið
Í Kubbnum sýnir Bára Kristinsdóttir ljósmynda- og vídeóverk sitt Verkstæðið. Verkið gefur innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunar verkstæði í útjaðri Reykjavíkur á síðustu tveimur árum. Áður voru á vinnustaðnum blómleg viðskipti þar sem unnið var handvirkt upp á gamla mátann. Nútímatækni hóf hins vegar aldrei innreið sína í fyrirtækið og sá tími er kominn að handbragð þeirra er ekki lengur eftirsótt. Einungis eigandinn og einn starfsmaður eru eftir. Fyrirtækið þarf því að lúta í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Verkstæðið lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð og virðist eins og hver annar vinnustaður í iðnaðarhverfi. Þegar inn er komið blasir við önnur sýn. Heimurinn sem þeir félagar lifa og hrærast í hefur lítið breyst frá því að verkstæðið hóf starfsemi fyrir um 40 árum. Viðhald hefur verið í lágmarki sem gerir það að verkum að það er líkt og tíminn hafi staðið í stað.
Bára bregður upp einlægri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Myndirnar sýna okkur fagurfræðina og nostalgíuna í gömlum og slitnum hlutum ásamt gömlu handverki. Viðtöl Báru við eigandann og sagnamanninn Elías auka á dýpt verksins og glæða það mannlegri hlýju og nánd. Við skynjum stemninguna og þær tregablöndnu tilfinningar sem bærast í brjósti manns á þessum tímamótum í lífi hans. Um leið varpar verkið sjónum okkar að afleiðingum þjóðfélagsbreytinga, starfslokum og þeim viðkvæmu tilfinningum sem þeim fylgja.