EYJA Í ÖLFUSI: Valdimar Thorlacius
Eyja í Ölfusi nefnist sýning ljósmyndarans Valdimars Thorlacius. Titillinn vísar til bæjar á Suðurlandi sem er á virku hverasvæði og við þekkjum undir nafninu Hveragerði. Bærinn er einnig heimabær ljósmyndarans og hefur því sérstaka þýðingu fyrir hann sem viðfangsefni.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Í bænum miðjum vellur heitt vatn upp úr jörðinni, ýmist í fyrirsjánlegum rólegheitum eða með óvæntum hávaða og látum. Svæðið er áhugavert og einkennist af litskrúðugum bergmyndunum, brennisteinsútfellingum, gufustrókum og dularfullum holum. Byggðin er ekki gömul en nafnsins er fyrst getið í Fitjaannáli rétt fyrir 1700. Þar segir meðal annars af tilfærslum og nýmyndunum hvera í kjölfar Landskjálftans 1597. Virk hverasvæði taka nefnilega stöðugum breytingum. Hverasvæðið sem lúrir í miðju Hveragerðis er lifandi skepna. Með henni lifir fólkið frá degi til dags.
Fram til 1902 höfðu hverirnir og heita vatnið í Hveragerði verið nýtt til þvotta, baða og suðu. Um það leyti fór áhugi manna á jarðvarmanýtingu til atvinnusköpunar vaxandi. Húsin risu eitt af öðru í kringum ylinn í jörðinni. Í dag er appelsínugulur bjarmi frá upplýstum gróðurhúsum ásamt hverabólstrum einkenni bæjarins. Sundlaugin í Laugarskarði var byggð árið 1938 og var lengi lengsta laug landsins. Seinna komust menn svo upp á lagið með að nýta leirinn úr hverunum til heilsuræktar og árið 1950 opnaði Landspítalinn leirböð á Hverasvæðinu. Skömmu síðar hóf Náttúrulækningafélag Íslands rekstur heilsuhælis í Hveragerði.
Hveragerði varð til og hefur lifað vegna jarðhitans. Nokkrir frumherjar sáu tækifærin og höfðu hugvit og elju til að nýta þau. Í dag hugsa íbúarnir kannski ekki mikið um varmann dags daglega. En hann er hluti af lífinu. Hús þeirra eru byggð við eða ofan á sprungum og hverum. Þau hafa laskast í jarðskjálftum og hverir hafa jafnvel brotist upp í gegnum jarðveginn og komið upp inni í þeim.
Í þessu verki skoðar Valdimar það Hveragerði og manneskjurnar sem er að finna innan um hverina, gufuna og gróðurhúsin.
Valdimar Thorlacius útskrifaðist frá Ljósmyndaskólanum árið 2014.
Sama ár hlaut hann styrk úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar og gaf út ljósmyndabók.
Árið 2015 tók hann þátt í samsýningunni Warsaw Festival of Art Photography, Galeria Obok ZPAF í Varsjá, Póllandi ásamt því að vera með einkasýningu Þjóðminjasafn Íslands.