FJÖLSKYLDUMYNDIR
Á sýningunni "Fjölskyldumyndir" er að finna ljósmyndir hjónanna Guðbjarts Ásgeirssonar og Herdísar Guðmundsdóttur ásamt verkum nokkurra afkomenda þeirra sem eru á meðal fremstu ljósmyndara þjóðarinnar.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Guðbjartur Ásgeirsson
Herdís Guðmundsdóttir
Magnús Hjörleifsson
Elías Hjörleifsson
Ólafur Elíasson
Ari Magg
Silja Magg
Það reyndist afdrifarík ákvörðun þegar Guðbjartur Ásgeirsson, bryti, skipti á reiðhjólinu sínu og myndavél árið 1911. Ekki leið á löngu þar til Herdís Guðmundsdóttir, eiginkona hans, var komin með myndavélina á loft, meðal annars við síðustu heimsókn Kristjáns X. Danakonungs til Íslands árið 1936. Eftir þau hjónin liggja merkilegar myndir af ýmsu tagi – ekki síst heimildir um sjósókn Íslendinga á þessum tíma.
Bræðurnir Magnús og Elías Hjörleifssynir, eru barnabörn þeirra hjóna og nýttu þeir myndavélina hvor á sinn hátt: Elías heitinn fangaði náttúruna fyrir myndlist sína en Magnús hefur átt langan og farsælan feril sem ljósmyndari fyrir auglýsingar jafnt sem tímarit.
Yngsta kynslóð Kassahússættarinnar sem á verk sín á sýningunni er nánast óþarfi að kynna, þau Ólaf Elíasson, Ara Magg og Silju Magg. Systkinin Ari og Silja stigu sín fyrstu skref undir handleiðslu föður síns sem einnig gaf Ólafi bróðursyni sínum fyrstu myndavélina. Síðan þá hafa þau öll vakið athygli hér heima jafnt sem erlendis, hvert á sinn hátt.
Það spennandi verkefni bíður nú sýningargesta að finna og rekja rauðu þræðina gegnum myndir Kassahússættarinnar- og kannski velta því um leið fyrir sér hvað hefði gerst ef Guðbjartur hefði ákveðið að hjóla bara áfram í vinnuna árið 1911.