FLICKR-FLAKK OG HELJARSTÖKK
Ljósmyndasafni Reykjavíkur er ánægja að kynna sýninguna Flickr-flakk og heljarstökk sem beinir sjónum sínum að íslenskum ljósmyndurum og ljósmyndaáhugamönnum sem lifa og hrærast í ljósmyndarasamfélaginu Flickr á netinu. Aldrei hefur verið eins auðvelt að koma myndum sínum á framfæri. Það sem áður fyrr tók vikur og mánuði er nú gert á nokkrum sekúndum og er titill sýningarinnar vísun í þessa kúvendingu sem hefur átt sér stað.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Margir segja að ljósmyndun dagsins í dag sé að finna í Flickr-vefnum, sem hýsir myndablogg í milljónatali og er óhætt að segja að hann sé sá vinsælasti sinnar tegundar í heiminum um þessar mundir. Uppgang hans má rekja til gjörbreyttra starfshátta í ljósmyndun sem hafa skapast með tilkomu hins nýja stafræna umhverfis þar sem myndamagninu eru engin takmörk sett og möguleikarnir virðast endalausir. Myndablogg, sem hafa notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár, má skilgreina sem einskonar umgjörð utan um myndir og samskipti þar sem fólk safnast saman, fylgist með þróun verka hvert annars og myndar hópa utan um sameiginleg áhugamál. Tilurð þeirra hefur m.a. gert það að verkum að svið áhuga og atvinnuljósmyndunar skarast á þann hátt að nú er auðveldara að koma sér upp góðri aðstöðu og ná góðum tökum á faginu. Opnast hafa möguleikar á að gera tilraunir með ljósmyndun á háu stigi og nægir að hafa Photoshop og bleksprautuprentara til þess að búa til gæðaprent. Út frá þessu má segja að Flickr hafi gert ljósmyndun lýðræðislegri og storki hugmyndum manna um hvað ljósmyndun er.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur bauð íslenskum notendum Flickr að senda myndir á sýninguna inn á Flickr-vefsíðu sem safnið setti upp sl. sumar. Á ríflega tveimur mánuðum voru sendar inn vel á þriðja þúsund myndir sem sýningarnefnd safnsins svo valdi úr. Með umgjörð og umfang sýningarinnar er leitast við að færa þennan netheim yfir á efniskennt form. 85 manns eiga myndir á sýningunni og er henni skipt í nokkra af algengustu Flickr-flokkunum: Daglegt líf, Portrett, Svart/hvítt, Tíska, Tónlist og Umhverfi. Myndir eftir enn fleiri er að sjá á sýningunni því forvali hennar, tæplega 500 myndum, mun verða varpað stafrænt úr myndvarpa á vegg. Hluti sýningarinnar var í októbermánuði settur upp á íslenskri menningarhátíð í Prag; Islandsky pruvan, og vakti þar mikla athygli.