Grófarsalur 16.09.2023 til 10.12.2023

Gréta S. Guðjónsdóttir │19, 24, 29, 34, 39 – hlutskipti og örlög

19, 24, 29, 34, 39 – hlutskipti og örlög er yfirskrift sýningar Grétu S. Guðjónsdóttur sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 16. september . Á sýningunni er röð mynda sem Gréta tók af níu einstaklingum á 20 ára tímabili ásamt hugleiðingum þeirra um lífið og tilveruna.

5 ljósmyndir skeyttar saman í eina. Á myndunum er sami karlmaðurinn en á mismunandi aldri.
Gréta S. Guðjónsdóttir │19, 24, 29, 34, 39 – hlutskipti og örlög

„Þegar manneskja er 19 ára skiptir útlit oft miklu máli. Lífsafstöðu hennar má lesa í klæðaburði, hárgreiðslu, fasi og hvernig er umhorfs heima fyrir. En hversu mikil áhrif getur hvert og eitt okkar haft á eigin lífsleið? Rætast draumarnir sem við lögðum upp með þegar við vorum tæplega tvítug?

Þegar ég var að kenna þessum aldurshópi fannst mér áhugavert og spennandi hvað margir nemendur höfðu sterkar lífsskoðanir og töldu sig vera með allt á hreinu. Þeim fannst við sem eldri voru ekki hafa neinn skilning á þeirra lífi. Unga fólkið lagði mikið á sig að klæðast fötum sem endurspegluðu þeirra lífsviðhorf og gildi. Þau sem eldri væru gætu ekki sett sig í spor yngra fólks; þeirra sem ættu lífið framundan, þeirra sem væru allir vegir færir og þeirra sem væru ódauðleg. 

Það sem mér fannst sérlega spennandi í samskiptum við ungmennin og kveikti hugmyndina að þessu verkefni, var að þetta voru eiginlega sömu hugsanir og ég sjálf glímdi við á sama aldri. Klæðaburður og hárgreiðsla sem vakti athygli, skoðanir sem stuðuðu og lífsviðhorf sem ögruðu og gengu gegn hugmyndum og ríkjandi viðhorfum eldri kynslóðarinnar. Svo áhugavert að sjá hvernig lífið endurtekur sig sífellt, það er eins og allt fari í hringi og manneskjan ávallt söm við sig.

Í framhaldi fékk ég þá hugmynd að fylgja þessum einstaklingum eftir í myndum og texta. 
Fyrsta takan fór fram árið 2002 en þá myndaði ég níu stelpur og stráka sem voru hjá mér í ljósmyndaáfanga á listasviði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti en þá voru þau 19 ára. Í 20 ár hef ég fylgt þeim eftir, elt þau víða um heim og tekið af þeim myndir. Einnig hafa þau skrifað hugleiðingar sínar um hvar þau eru stödd í lífinu þá stundina og hvar þau sjá sig eftir annars vegar fimm ár og hins vegar tíu ár. Þessi nemendahópur er núna skriðinn inn á 39. aldursárið og tökurnar orðnar alls fimm.

Uppleggið er alltaf hið sama. Ég byrja á að taka svarthvítar myndir af þeim í fullri stærð í myndveri (stúdíói). Bakgrunnurinn er hvítur til að draga fram og einblína á fas og persónuleika hvers og eins. Í framhaldi af því fer ég síðan heim til þeirra og mynda einstaklinginn á þeim stað sem hann velur og lýsir honum best. Þegar þau voru í kringum tvítugt þá voru þau flest mynduð í eigin herbergi, heima hjá foreldrum eða aðstandendum. En aftur á móti þegar þau eltust og voru farin að búa sjálf þá varð stofan oftast fyrir valinu. 

Þessi 20 ár síðan ég hóf þetta verkefni hafa verið sérlega gefandi og skemmtileg og nú er svo komið að þau mínir gömlu nemendur eru orðin eldri en ég var, þegar við hófum þessa vegferð saman. Þau eru orðin „þessi gömlu“ sem eiga erfitt með að setja sig í spor 19 ára ungmennis.“

                                 Gréta S. Guðjónsdóttir

 

Gréta lauk BA gráðu í listrænni ljósmyndun frá AKI, Akademie voor beeldende kunst, Hollandi, 1996. Hún hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari hér á landi síðan 1996. Hún lauk námi í kennslu og uppeldisfræði í KHÍ og hefur frá árinu 1997 kennt ljósmyndun á listasviði Fjölbrautarskólans Breiðholti. Nánari upplýsingar um Grétu má finna á vef hennar hér.

 

 

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.200 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

820 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.450 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista ljósmyndasafnsins

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.