Grófarsalur 25.09.2021 til 12.12.2021

Hilmir snýr heim │Sigurður Unnar Birgisson

Sýningin „Hilmir snýr heim“ eftir ljósmyndarann og myndlistarmanninn Sigurð Unnar Birgisson samanstendur af stækkuðum passamyndum af karlmönnum um sjötugt ásamt blómamyndum úr náttúru Íslands eftir Hjálmar R. Bárðarson (1918-2009).

©Sigurður Unnar Birgisson (vinstri mynd) ©Þjóðminjasafn - Hjálmar R. Bárðarson (hægri mynd)

Það kann að þykja óvenjulegt að stilla þessum tveimur myndefnum upp saman. Hvað gætu rosknir karlar átt sameiginlegt með blómum? Við fyrstu sýn virðist það ekki vera margt annað en að hefðbundinni, raunsærri nálgun er beitt í báðum tilfellum auk þess sem greina má  samhljóm með myndformum. Sýningin veltir þó upp djúpstæðari spurningum þar sem kafað er undir yfirborðið og hlutirnir settir í stærra samhengi.

Myndirnar af karlmönnunum eru allar teknar á vinnustað ljósmyndara, Passamyndum, vegna endurnýjunar ökuskírteinis þeirra við 70 ára aldur. Sigurður Unnar hefur því tekið fjölmargar slíkar myndir í sínu starfi, sem hefur gefið honum færi á að sjá og skilgreina þær sem afmarkað viðfangsefni sem hann velur að nálgast sem listform. Karlarnir standa allir á tímamótum, starfsævinni að ljúka og eftirlaun taka við. Til að fá dýpri innsýn í líf þeirra og í hvað þeir vörðu tíma sínum hitti Sigurður Unnar þá einnig utan ljósmyndastofunnar. Afrakstur þess eru auk myndanna textaverk og stuttmynd sem veita dýpri innsýn inn í heila starfsævi.  

Við starfslok verða óumflýjanlega miklar breytingar og við tekur vegferð í átt til andlegrar endurskoðunar. Þetta getur leitt til hugljómunar þar sem manneskjan getur sprungið út eins og blóm, sagt skilið við þungann, leyft andanum að lyfta sér og opnast á mót sólu. Sagan segir að Búdda hafi haldið blómi á lofti án orða fyrir framan hóp lærisveina sinna. Þeir horfðu á hann og blómið til skiptis um stund. Loks breiddist lítið bros á varir eins þeirra. Sagt er að brosið marki upphaf Zen búddisma. Einnig bendir þýski rithöfundurinn Eckhart Tolle á að blóm séu hugsanlega það fyrsta sem manneskjur dáðu aðeins fyrir fegurð sína. Þau birtist okkur sem sendiboðar og leiðarvísar í átt að hinu háleita, heilaga og óhlutbundna sem vaki innra með hverju og einu okkar.  

Sigurður Unnar segir: „Herrarnir á sýningunni eru mín blóm. Ég dái þá fyrir fegurð þeirra og þeir eru minn leiðarvísir í átt að því hvernig á að lifa sem karlmaður. Þeir komu allir í myndatöku til mín og suma þeirra hitti ég aftur.“ Kjarnann í samlíkingu herranna og blómanna er svo að finna í  6. kafla Matteusarguðspjalls, versi 28: „Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.“

Blómamyndir Hjálmars R. Bárðarson birtust í bók hans Íslenskur gróður árið 1998. Hann var afkastamikill ljósmyndari og gaf út fjölda ljósmyndabóka. Myndasafn Hjálmars er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands sem veitti góðfúslegt leyfi fyrir notkun myndanna á sýningunni.

Sigurður Unnar Birgisson býr í Reykjavík og starfar á ljósmyndastofunni Passamyndir. Hann útskrifaðist með BA og MA gráðu frá Universität der Künste í Berlín árið 2015 undir handleiðslu Mariu Vedder. Frá því að hann lauk námi hefur hann komið að innsetningum á listahátíðinni „Háskar“, lesið upp dagbókarfærslu sem hluta af gjörningi í Mengi, listamannareknu rými í Reykjavík, leikstýrt föður sínum í tónlistarmyndbandi við lag Teits Magnússonar „Bara þú“ og unnið fyrir Reykjavík Dance Festival í samstarfi við Michikazu Matsune að verkinu „The Viewers“.

Viðfangsefni Sigurðar er manneskjan eins og hún birtist af holdi og blóði. Hægt er að nálgast sýnishorn af verkum hans á www.sigurdurunnar.com.

 

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.200 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

820 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.450 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista ljósmyndasafnsins

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.