Salur 18.05.2019 til 08.09.2019

Íslensk kjötsúpa │Kristjón Haraldsson

Sýningin Íslensk kjötsúpa setur ljósmyndarann Kristjón Haraldsson í sviðsljósið jafnframt því sem athygli er beint að verklagi, úrvinnslu og stíl í ljósmyndun. Samhliða því sem aðferðir í ljósmyndun eru teknar til skoðunar er sjónum beint að ljósmyndaranum á bak við myndavélina og þannig er dregin upp mynd af Kristjóni, fjölskyldu hans og íslensku þjóðinni á áttunda og níunda áratugnum.

Ljósmyndasafn - Kristjón Haraldsson

Kristjón Haraldsson (1945–2011) ljósmyndari vann fyrst og fremst við auglýsingaljósmyndun á áttunda og níunda áratugnum. Á þessu tímabili var Kristjón vel þekktur fyrir tískuljósmyndir sínar, myndir á plötuumslögum og auglýsingaljósmyndir. Árið 1973 var mynd hans af gosinu í Vestmannaeyjum birt í tímaritinu National Geographic. Margar myndanna á þessari sýningu, frá auglýsingaherferðum hans og ljósmyndatökum af tónlistarmönnum, voru teknar í ljósmyndastúdíói hans, Stúdíó 28, sem enn er haft í minnum þegar arfleifð hans kemur við sögu. Ásamt myndum sem hann tók í atvinnuskyni eru á sýningunni myndir eftir Kristjón sem eru mun persónulegri, nærgöngular myndir af hversdagslífi fólks, sem sýna glöggt hans listræna auga. Nú er þetta safn mynda sýnt í nýju samhengi og ljósi varpað á afkastamikinn feril Kristjóns.

„Fyrst erum við leidd inn í myrkraherbergið og stúdíóið. Áhorfandanum er bókstaflega boðið að ganga aftur fyrir sjónhverfingarbaktjald auglýsingaljósmyndar og skyggnast á bak við þá draumsýn sem við sýnum umheiminum. Leikmyndirnar fyrir auglýsinga- og tískuljósmyndatökur Kristjóns eru fegraðar svo að þær gefi mynd af eftirsóknarverðum lífsstíl, eru sviðsett útópía.

Oft gerist það hins vegar að Kristjón nær næstum óvart að fanga tærar mannlegar tilfinningar, sanna upplifun. Í einkaljósmyndum sínum fangar hann persónulegustu kenndir fólks á þessum óvæntu augnablikum. Konur á heimilinu að vinna sín venjubundnu daglegu heimilisstörf, hversdagsleg augnablik við morgunverðarborðið, fólk fær sér kaffi saman, nýtur síðdegisstunda á sundlaugarbakkanum, baðar sig í skammvinnu sólskininu á grasflöt niðri í bæ.

Þegar þessum ljósmyndum af hversdagslífi er stillt upp við hlið auglýsingaljósmynda hans, sem eru í eðli sínu yfirborðslegar, skapa þær máttugt mótvægi á sýningunni og minna á það að ljósmyndun er öflugri en svo að hún sé ekki annað og meira en einföld heimildasöfnun. Minna má á orð Susan Sontag sem skrifaði eitt sinn að „ljósmyndir eru í raun fönguð reynsla, og myndavélin er fullkominn griparmur vitundarinnar þegar hún er í skapi til að safna“.

Listalífið á Íslandi á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda og níunda einkenndist af vaxandi áhuga á hugmyndalist og tilraunum með listform samhliða því sem íslenskir listamenn nutu aukinnar alþjóðlegrar viðurkenningar erlendis. Enda þótt Kristjón hafi á sínum tíma aðallega unnið sem auglýsingaljósmyndari, fremur en sem listrænn ljósmyndari í strangasta skilningi, er mikilvægt að hafa í huga það sögulega og listræna samhengi hans helsta tímabils við störf þegar við nú göngumst við listrænu gildi ljósmynda hans á okkar tímum.

Ljósmyndarar í Bandaríkjunum og Evrópu beindu athygli sinni að hversdeginum og leituðust við að fanga innra líf fólks, jafnframt því að skrásetja myndrænt mikilvæga menningarlega og stjórnmálalega viðburði. Ljósmyndir Kristjóns af miðborg Reykjavíkur á áttunda áratugnum og daglegu lífi borgaranna hefur fremur skýra skírskotun til Documeria-verkefnisins í Bandaríkjunum á sama áratug, svo dæmi sé tekið. Documeria sem var rekið af umhverfisverndarstofnuninni á áttunda áratugnum, réð freelance ljósmyndara til að mynda lífi venjulegs fólks í Bandaríkjunum, með fókus á umhverfi og félagsleg mál.

Ljósmyndir frá þessum árum gegndu mjög mikilvægu hlutverki í að breyta þeim skilningi á ljósmynduninni að hún væri óæðri list miðað við hefðbundið málverk og höggmyndagerð, og ögruðu þeirri hugmynd að ljósmyndun væri einungis söguleg skráning, fremur en listmiðill í sjálfri sér. Líkt og Kristjón fengust margir ljósmyndarar á þessum tíma nær eingöngu við að vinna fyrir auglýsingastofur og fréttastofur dagblaða og lutu þannig vissum takmörkunum þegar kom að listrænu frelsi. Fyrir vikið naut einlægni listrænnar túlkunar þeirra sín helst í einkaljósmyndum, eins og við sjáum merki um í ljósmyndasafni Kristjóns, enda þótt segja megi um allar myndir hans að á þeim séu einstök skapandi höfundareinkenni.

Daría Sól Andrews, sýningarstjóri

 

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.240 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

850 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.700 kr.

Menningarkort 67+, árskort

2.220 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista ljósmyndasafnsins

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.