Grófarsalur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 16.09.2017 til 14.01.2018

Jack Latham – Mál 214

Sýning um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, eitt stærsta og umdeildasta sakamál Íslandssögunnar.

©Jack Latham
Borð samsæriskenningarsmiðs.

Guðmundar- og Geirfinnsmálið er eitt stærsta og umdeildasta sakamál Íslandssögunnar. Breski ljósmyndarinn Jack Latham hefur kynnt sér málið frá ýmsum hliðum þess, hitt að máli marga þá sem koma við sögu og ljósmyndað sögusvið rannsóknarinnar. Efniviður sýningarinnar spannar allt frá lögregluskýrslum til samsæriskenninga, réttarvísinda og hugtaksins minnisvafaheilkenni. Latham setur fram spurningar um sönnunargögn og sannleika, vissu og óvissu, einkum út frá minninu og ljósmyndinni sem miðli.

 

Jack Latham hlaut ljósmyndabókaverðlaunin Bar Tur Photobook Award árið 2015. Bók hans, Sugar Paper Theories, hefur að geyma sama efni og sýningin, en bókin var gefin út sameiginlega af Here Press og The Photographers’ Gallery.

Dr. Mark Rawlinson

Sugar Paper Theories by Jack Latham
Sviðsetning á atburðunum sem leiddu til dauða Geirfinns. Sviðsetningin fór fram 23. janúar 1977. Ljósmynd úr lögregluskýrslu málsins.

Guðmundar- og Geirfinnsmálið er eitt stærsta og umdeildasta sakamál Íslandssögunnar. Á þessari sýningu er ekki gerð tilraun til að leysa málið eða leiða fram nýjar staðreyndir. Þess í stað hefur höfundur hennar, Jack Latham, blandað saman eigin ljósmyndum við eldri myndir og gögn úr rannsókn málsins til að kanna eðli ljósmyndarinnar og spyrja grundvallarspurninga um samband hennar við sannleika og hlutlægni.

Ljósmyndir sem sýnileg sönnunargögn búa yfir miklum sannfæringarmætti. Hugmyndin um að þær skrásetji hinn ytri veruleika og festi hann á pappír svo unnt sé að skoða hann óháð upprunalegum vettvangi eða hlut er ákveðin grunnforsenda ljósmyndunar allt frá upphafsdögum hennar. Vegna hins vélræna eðlis hennar tengja menn ljósmyndun gjarnan við hlutlægni – vélar þurfa enda ekki að burðast með tilfinningar og þær eru hlutlausar um val á myndefni. Frá þessum sjónarhóli er myndavélin einungis tæki sem skrásetur það sem fyrir linsuna ber. Auk þess eru ljósmyndir nokkurs konar „afrit“ af hluta hins ytri veruleika. Þetta skýrir áhrifavald ljósmynda sem heimilda og sönnunargagna, allt frá því að þær komu fyrst til sögunnar. Slíkir þættir skýra einnig hið mikilvæga hlutverk sem ljósmyndir gegna í skjala- og gagnasöfnum sem einhvers konar „lifandi minningar“, sem eru aðgengilegar, auðráðanlegar og óháðar mannlegri gleymsku. 

Sugar Paper Theories ©Jack Latham
Sviðsetning á atburðunum sem leiddu til dauða Geirfinns. Sviðsetningin fór fram 23. janúar 1977. Ljósmynd úr lögregluskýrslu málsins.

Á meðal umfjöllunarefnis sýningarinnar eru lögreglurannsóknir, samsæriskenningar, ákveðið hugarfar í íslensku samfélagi á 8. áratugnum, refsing og réttlæti, krafan um niðurstöðu í rannsókn sakamála, ráðgátur og óvissa, sök og sakleysi, missir og einangrun og síðast en ekki síst, hlutverk ljósmynda. Latham byggir nálgun sína á hugtakinu minnisvafaheilkenni (e. memory distrust syndrome), sem er sálrænt ástand sem réttarsálfræðingurinn dr. Gísli Guðjónsson hefur lýst á grundvelli rannsókna sinna á fölskum játningum. Segja má að þessi aðferð Lathams kveiki efa um sannleiksgildi ljósmynda. Gísli hefur lýst minnisvafaheilkenni sem ástandi „þar sem fólk fer að vantreysta verulega eigin minni [...] og reiða sig á ytri áreiti og það sem er gefið í skyn.“ Latham byggir á þessari skilgreiningu og kallar á endurmat á sannleiksgildi ljósmynda og hlutverki þeirra sem sönnunargagna. Hvernig getum við treyst því sem þær segja okkur? Hvernig getum við verið viss um merkingu þeirra?

Myndir af vettvangi mannshvarfa, portrettmyndir, götumyndir, innanhússmyndir og landslagsmyndir flækja bara upplifun okkar af málinu. Sýningin undirstrikar líka togstreitu milli ólíkra hugmynda, svo sem milli heimildargildis ljósmynda annars vegar og listræns gildis þeirra hins vegar. Stærri ljósmyndir Lathams eru uppbyggðar og prentaðar þannig að hægt er að njóta þeirra sem sjálfstæðra verka með listrænt gildi óháð efnisatriðum málsins – en þó eiga þær tilurð sína að rekja til þess. Með svipuðum hætti hafa ljósmyndirnar úr skjala- og gagnasafni lögreglunnar sláandi listrænt gildi þrátt fyrir að eiga uppruna sinn í vettvangsrannsókn sakamáls. Eins og gildir um sjálft skjala- og gagnasafnið má lesa úr þessum ljósmyndum, sem teknar eru í sönnunartilgangi, að þær fela í sér virka frekar en hlutlausa þátttöku í því að skapa merkingu.

Þannig vekur Latham spurningar um hina opinberu ljósmyndafrásögn yfirvaldsins og þar með um almennt heimildagildi ljósmynda. Mál 214 býður því upp á frásögn óvissunnar: ljósmyndun efans. Ljósmyndin er hér ekki í hlutverki sjónrænnar sönnunarfærslu eða einhvers konar lokapunkts, heldur er hún uppspretta nýrra spurninga, sem kalla á viðurkenningu á brigðulleika hennar.

Dr. Mark Rawlinson

Jack Latham
Jack Latham

Jack Latham hlaut ljósmyndabókaverðlaunin Bar Tur Photobook Award árið 2015. Bók hans, Sugar Paper Theories, hefur að geyma sama efni og sýningin en bókin var gefin út sameiginlega af Here Press og The Photographers’ Gallery.

Upplýsingar

Upplýsingar

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Grófarhús, Tryggvagata 15, 6. hæð

101 Reykjavík

Sími: (+354) 411 6390

Hafðu samband

Tekið á móti hópum (10+) eftir samkomulagi

Skólaheimsóknir

Hafðu samband

Opið

Opið

mán-fim 10:00-18:00

fös 11:00-18:00

helgar 13:00-17:00

Jólahátíðin

Lokað 24.-26. des og 31. des- 1. jan.

Páskahátíðin

Lokað páskahelgina frá fim-mán

Sumardagurinn fyrsti.

Lokað

Verkalýðsdagurinn

Lokað 1. maí

Uppstigningardagur

Lokað

Hvítasunna

Lokað

Þjóðhátíðardagurinn

Lokað 17. júní

Aðgangseyrir

Aðgangur

Fullorðnir

1.200 kr.

Börn og öryrkjar

Frítt

Nemendur með gilt skólaskírteini

820 kr.

Menningarkort, árskort á borgarsöfnin

7.450 kr.

ICOM og FÍSOS korthafar

Frítt

Skráðu þig á póstlista ljósmyndasafnsins

Við sendum þér upplýsingar um viðburði, tilboð og fleira skemmtilegt.