Ljós-hraði – Fjórir íslenskir samtímaljósmyndarar
Sýningin Ljós-hraði – Fjórir íslenskir samtímaljósmyndarar – kynnir fram á sjónarsviðið ljósmyndir þeirra Orra, Katrínar Elvarsdóttur, Kristínar Hauksdóttur og Sigríðar Kristínar Birnudóttur.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Allar eiga myndirnar á sýningunni það sammerkt að endurspegla áhrif úr samfélaginu sem móta daglegt líf okkar og þann hraða sem því fylgir. Segja má að hver og einn ljósmyndaranna standi fyrir mismunandi viðhorf innan þessa viðfangsefnis og leggi til með verkum sínum eigið sjónarhorn á lífið og tilveruna. Enda þótt efnistök þeirra séu af margvíslegum toga og mótist af persónulegri reynslu, bakgrunni og áhugasviði hvers og eins, þá leiða myndirnar okkur allar inn í heim aðstæðna sem vekja upp ýmsar spurningar um það hvað bærist „undir yfirborðinu”. Verkin færa fram á sjónarsviðið svipleiftur úr fortíðinni og minningar sem gefa ímyndunarafli hlutlauss áhorfanda færi á að spinna eigin söguþráð.
Katrín Elvarsdóttir, (f.1964) sýnir ljósmyndir sem draga fram þann veruleika sem birtist okkur milli draums og vöku í staðinn fyrir að einblína á blákaldan raunveruleikann.
Kristín Hauksdóttir, (f.1966) er með tvær myndaraðir á sýningunni sem hún nefnir 1 og Frítími þar sem hún varpar upp í gegnum myndir sínar spurningum um manninn í samfélaginu.
Orri, (f.1970) sýnir portrettmyndaröð litaðri tilfinningaþrunginni spennu sem hefur orðið vegna sterkra og raunsærra áhrifa myndefnisins.
Sigríður Kristín Birnudóttir, (f.1972) leggur af mörkum portrettmyndaröð af eigin sjálfsmyndum, ríkum af tilvísunum eins og breytingum tengdum tímabilum lífs okkar og leitinni að sjálfsmyndinni.
Eitt meginmarkmið sýningarinnar er að þessi margvíslegu brot úr hugarheimi ljósmyndaranna varpi ljósi á „daginn í dag” og hvetji áhorfandann til að staldra við og gefa sér tíma til að hugsa um hvernig við lifum í núinu og hvernig við horfum á heiminn í kringum okkur en síðast en ekki síst er ætlunin að sýna almenningi þá miklu grósku sem er um þessar mundir á vettvangi íslenskrar samtímaljósmyndunar. Sýningin er haldin í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík (27. febrúar til 2. mars 2003).