Man ég fjallið │Laura Valentino
Man ég fjallið er yfirskrift sýningar sem opnuð verður fimmtudaginn 13. júní í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Verkin á sýningunni eru eftir Lauru Valentino. Sýningin stendur til 21. ágúst 2019.
/*php $markup = $content['field_mynd_stor'][0]['#markup']; $markup = str_replace('typeof="foaf:Image"', 'typeof="foaf:Image" class="lightbox"', $markup); $content['field_mynd_stor'][0]['#markup'] = $markup; */?>
Laura Valentino kannar fegurð og munúð í sígildu myndefni eins og fólki og landslagi. Hún notar hefðbundnar ljósmyndunaraðferðir til að fanga hið eilífa og almenna í hversdagslegum viðfangsefnum. Með því að beita aðferðum hliðrænnar (e. analog) ljósmyndunar myndast fjarlægð milli viðfangsins og túlkunar á því. Útkoman vekur upp minningar og tilfinningar sem endurspegla framrás tímans.
„Man ég fjallið er framhald af verkinu Andlit jarðar, eða öllu heldur minning mín af vinnslu þess verkefnis. Með því að endurvinna ljósmyndir sem ég tók fyrir nokkrum árum öðluðust þær sjálfstætt líf og fengu á sig draumkenndan blæ. Landslag líkt og manneskjur er síbreytilegt, erfitt er að staðsetja hvort tveggja í ákveðnu augnabliki. Þættir eins og veðurfar, árstíðir, birta, náttúruöfl og athafnir manneskjunnar hafa áhrif á skynjun okkar á því sem fyrir augu ber.“
Laura Valentino er með meistaragráðu í myndlist frá Kaliforníuháskóla, Berkeley. Hún flutti til Íslands árið 1988 og hefur tekið þátt í mörgum sýningum hér á landi og erlendis, sem málari og grafíklistamaður. Hún lítur fyrst og fremst á sig sem grafíklistamann (e. printmaker) en hefur unnið með sígildar ljósmyndunaraðferðir síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Laura gekk til liðs við SÍM og Íslenska Grafík 2008 og stofnaði ásamt fleirum Félag filmuljósmyndara á Íslandi árið 2014. Hún er í stjórn (stúdíónefnd) ÍG og kennir námskeið í „gum bichromate“ aðferð. Hún var sýningastjóri sýningar um hliðrænar og óhefðbundnar ljósmyndir í Gallerí Fold.
